145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[11:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að ræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin standa mörg hver illa, ríkissjóður er að braggast en sveitarfélögin eru mörg ekki í góðum málum. Mér finnst ekki hægt að útskýra það bara með því að sveitarfélögin séu ekki vel rekin. Það eru vissulega sveitarfélög sem hafa verið afar illa rekin, við þekkjum það, jafnvel farið á hausinn. En mér finnst það að mörgu leyti réttmæt gagnrýni frá sveitarfélögunum að þau ættu að fá meiri hlutdeild í tekjum ríkissjóðs og þau tiltaka sem dæmi að þau mundu vilja fá hlutdeild í tryggingagjaldinu og gagnrýna að tryggingagjaldið lækki ekki vegna þess að það bitnar auðvitað á þeim. Þau benda á að þau vilji fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti þar sem margir einstaklingar og lögaðilar sem þiggja þjónustu sveitarfélaganna greiði í rauninni ekki útsvar. Það finnst mér líka vera mjög réttmæt ábending. Og svo er það eitt og annað eins og að sveitarfélögin vilji ekki greiða fjármagnstekjuskatt til ríkisins, það er kallað eftir aukinni hlutdeild í skattstofnum eins og t.d. gistináttagjaldi og gjöldum af umferð, sem ég sé fyrir mér að gæti kannski verið flóknara.

Mig langar að heyra hvað hæstv. forsætisráðherra finnst um þetta. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin standi á traustum grunni og geti rekið sína þjónustu. Þau hafa líka verið að yfirtaka verkefni frá ríkinu og í einhverjum tilfellum hefur ríkið ekki verið að greiða algjörlega með þeim. Það er mjög jákvætt að komið sé samkomulag um málefni fatlaðs fólks en sem dæmi má nefna að sveitarfélögin eru að greiða með hjúkrunarheimilum, Akureyrarbær greiddi jafnvel með heilsugæslunni á Akureyri um tíma, og svo mætti áfram telja. Telur hæstv. forsætisráðherra að kominn sé tími til að sveitarfélögin fái aukna hlutdeild í tekjum ríkisins?