145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[11:49]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga og þar af leiðandi tekjuskiptingin hefur verið til umræðu á árum og áratugum saman og tekið ýmsum breytingum og mun eflaust verða svo áfram. Það er rétt að ýmis sveitarfélög glíma við fjárhagserfiðleika nú um stundir. Ég hygg að miklar launahækkanir sem eru í farvatninu valdi mörgum sveitarfélögum áhyggjum, en einnig rekstrarvandi þeirra sveitarfélaga sem hafa kannski ekki verið nógu ábyrg sum hver undanfarin ár. Ég nefni sérstaklega Reykjavíkurborg undanfarin ár sem hefur komið sjálfri sér í miklu meiri fjárhagsvandræði en ástæða hefði verið til. Við þær aðstæður geta sveitarfélög ekki vænst þess að ríkið hlaupi einfaldlega undir bagga og að við nýtum þann efnahagslega styrk sem ríkissjóður er að byggja upp vegna skynsamlegrar efnahagsstjórnar til þess að bæta mönnum vanhugsaða stjórn fjármála í Reykjavíkurborg.

Þetta hlýtur að haldast í hendur fyrst og fremst við þau verkefni sem færast á milli ríkis og sveitarfélaga. Þar hafa menn sérstaklega verið að líta til, eins og hv. þingmaður nefndi reyndar, stöðu fatlaðs fólks og kostnaðinn við að sinna því mikla og mikilvæga en um leið oft á tíðum dýra verkefni. Það er mjög ánægjulegt að menn skuli hafa náð niðurstöðu um það og á næstu missirum og árum munu menn áfram ræða skiptingu verkefna og fjármagns milli ríkis og sveitarfélaga.