145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga.

[11:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þessi mál verða rædd eins og ég nefndi áðan næstu missirin og líklega árin, en sérstaklega á næstunni samhliða þeim breytingum sem verið er að ráðast í varðandi fjárreiður ríkisins og mat á verkefnum sveitarfélaganna. Það verður hins vegar að byggjast á þeim verkefnum sem sveitarfélögin sinna frekar en sveiflum í efnahagslegum árangri ríkisins. Það er ekki hægt að halda því fram að vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur náð miklum árangri í stjórn efnahagsmála þá eigi það sérstaklega að þýða að hún setji meira til sveitarfélaga. Það hefði þá þýtt að á síðasta kjörtímabili hefðu menn dregið úr framlögum ríkisins til sveitarfélaga vegna þess að stjórn efnahagsmála gekk ekki nógu vel. Við verðum alltaf að láta þetta haldast í hendur við verkefnin. Það er þess vegna álitaefni hvort fleiri verkefni eða önnur verkefni eigi að færast til sveitarfélaganna en nú er. Vissulega þarf það að haldast í hendur við það fjármagn sem sveitarfélögin hafa úr að spila. (BP: En sóknaráætlunin?)