145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

aðgangur 25 ára og eldri að framhaldsskólum.

[11:58]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef nú sjálf reynslu af því að hafa fullorðið fólk í framhaldsskólakerfinu og ég get fullyrt að það er engin áþján fyrir fullorðna manneskju að sitja á skólabekk með ungu fólki. Þvert á móti hefur það oft haft góð áhrif að blanda aldurshópum í framhaldsskólunum. Það er því engin áþján fyrir fullorðnar manneskjur að nýta sér þann kennslukraft, það námsframboð og þær aðstæður sem framhaldsskólakerfið hefur upp á að bjóða. Ekki síst getur þetta haft gagnkvæman ávinning í för með sér úti á landi, hjá landsbyggðarskólunum sem eru margir fáskipaðir nemendum.

En við skulum ekki pexa um tölur. Það hefur komið skýrt fram að 740 manns sem voru inni í framhaldsskólakerfinu í fyrra, 25 ára og eldri, skiluðu sér ekki þangað núna í haust. Af hverju það stafar getum við fabúlerað um út í hið óendanlega. Ég vona heitt og innilega að þetta fólk hafi fengið vinnu og það sé ástæðan fyrir fjarveru þess, að það sé á vinnumarkaði. En hitt er líka jafn ljóst að vinnumarkaðurinn þarf á menntuðu og hæfu fólki að halda. Þar af leiðandi hefði ég haldið að þessi stefnumótun væri ekki æskileg í samfélagslegum skilningi.