145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við höfum eytt hérna einum og hálfum tíma í morgun í að ræða fyrirkomulag þessarar umræðu og hvort hún sé orðin of löng eða of stutt eða hvernig menn vilja túlka það. Ég er hins vegar þeirrar gerðar, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur snúið því á alla þá vegu sem hann kýs, að ég tel mikilvægt að ná sátt í stjórnmálum. Ég tel mikilvægt að við ræðum okkur til niðurstöðu og reynum að ná sátt þegar um það ræðir. Það á þó aðallega við í risastórum hagsmunamálum er varða almenning á Íslandi þar sem það skiptir miklu máli. Slíkar formbreytingar eins og hér er um að ræða eru þess eðlis að ég verð að viðurkenna að ég skil ekki að við skulum geta gert þetta að ágreiningsefni á þinginu og eytt í það lunganum af tíma þingsins. Ég skil það ekki. Mér finnst þetta vera og eiga að vera ákvörðun hvers ráðherra. Hann þekkir gleggst til þess hvað er mikilvægt og hvernig farsælt er að halda á því. Síðan kemur stjórnarmeirihlutinn eðlilega að því og það er mat okkar bæði í Sjálfstæðisflokknum og í Framsóknarflokknum að þetta sé farsæl leið. Ég þekki ekki nákvæmlega og ætla ekki að fara í einhver átök við hv. þingmann um hvort hraða hefði mátt þessu máli á milli 22. október og 18. nóvember, eins og nefnt var hér, en nóg hefur stjórnarandstaðan nú gagnrýnt okkur fyrir að hafa keyrt málið í gegnum utanríkismálanefnd, eins og það var orðað, þrátt fyrir að haldnir hafi verið 16 fundir. Stundum er líka rétt að vera sammála um að vera ósammála. Við erum ósammála um þetta form og fyrirkomulag. Ég er algerlega sannfærð. Það er ágætt að hv. þingmaður telji þessa löngu umræðu hafa verið til góðs og málsmeðferðina í utanríkismálanefnd hafa nýst honum vel. Ég get sagt hið sama. Ég er mjög sannfærð og sátt við að fara með málið eins og gert er. Ég held að það sé kominn tími til að vera sammála um að vera ósammála í þessu máli.