145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:16]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir yfirferð hennar hér og fyrir að skýra frá sýn meiri hluta hv. utanríkismálanefndar í þessu máli. Mér fannst hv. þingmaður fara vel yfir það starf sem unnið var í hv. utanríkismálanefnd á milli 1. og 2. umr. Mig langar að taka undir breytingartillöguna sem hv. þingmaður kynnti fyrir hönd meiri hluta utanríkismálanefndar um að hver þingflokkur sem á sæti á Alþingi skuli tilnefna einn fulltrúa, enda er tillagan algerlega samhljóða fyrstu breytingartillögunni sem minni hluti nefndarinnar leggur til, þannig að um það atriði erum við sammála þvert á meiri hluta og minni hluta í nefndinni.

En mig langar að spyrja út í lokaorð hv. þingmanns um að hún teldi að nú væri kominn tími á að vera sammála um að vera ósammála. Líkt og rakið var ágætlega í framsögu hv. þingmanns erum við hér mjög ósammála. Það sést auðvitað langbest á hinni löngu umræðu sem verið hefur um málið. Það er vegna þess að það er alveg gríðarlegur ágreiningur uppi um þetta mál. Hingað til hafa þessi mál, þróunarsamvinnumálin, verið „settluð“ í sátt allra flokka. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því varðandi þetta gríðarlega stóra mál sem ætti ekki í eðli sínu að þurfa að vera flokkspólitískt, að það sé hér að komast í átakafarveg.