145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef setið í öllum nefndum þingsins og er náttúrlega ýmsu vanur. Ég hef komið að því að breyta flóknum lögum um stjórnkerfi fiskveiða og ég mundi telja að umfjöllun um þau mál hefði tekið töluvert lengri tíma og reyndar fleiri ár en þetta. Ég geri engar sérstakar athugasemdir við vinnu nefndarinnar. Í fyrra, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson fór mjög vel yfir, fengum við mikinn tíma og skoðuðum þetta mál vel. Þá tengdi enginn þetta tiltekna mál við lagabreytingarnar í Stjórnarráðinu.

Ég hef heldur ekki áfellst hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir stjórn hennar á vinnu nefndarinnar og þær misfellur sem þar voru og voru nokkuð alvarlegar. Það var samt ekki henni að kenna, hún var ekki á þeim fundi. Ég mundi telja að merkustu fundirnir hefðu verið haldnir milli 2. og 3. umr. Ég tel að þær upplýsingar sem þar komu fram hafi skýrt það mjög vel að það er búið að búa til hólf í lagarammanum sem er beinlínis eins og teiknaður upp fyrir þá stofnun sem Þórir Guðmundsson lýsir nokkuð ítarlega og byggir á írska módelinu. Þá vísa ég hv. þingmanni sérstaklega á þá glæru í glærukynningu hans þar sem er nákvæmlega teiknað upp það sem hann vill. Á það er stimplað með „retró sixtís“ letri, Irish Aid, þ.e. írsku stofnuninni. Hann hefur beinlínis teiknað þetta upp, lýsir stofnun sem ekki var pláss fyrir í íslenskum lögum, íslenskum rétti, fyrr en þegar breytingarnar á stjórnarráðslögunum tóku gildi í júlí síðastliðnum.

Því miður þekki ég ekki afstöðu Þóris til þess, enda skiptir hún ekki máli. Við erum hér að ákveða þetta.

Ég mundi telja að fundirnir millum 2. og 3. umr. hafi verið gagnmerkir en miðað við það í hvaða stöðu málið var komið geri ég engar athugasemdir við að ekki hafi það hrosshár verið spunnið frekar.