145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:02]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Úr hvaða pípulögn hljómaði þessi rödd? Það er töluverður munur á því að hlusta hér á hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur tala málefnalega um aðdraganda þessa máls og efni og hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur varaformann. Ég hef hingað til ætlað að hlífa þeirri hv. þingkonu við því að fjalla um hennar þátt í aðdraganda og meðferð þessa máls. Engin manneskja sem ég hef setið með hefur farið jafn harkalega með hlutverk sitt og stöðu sem varaformaður við að stýra nefnd eins og hv. þingmaður sem bókstaflega braut ítrekað lög um þingsköp. (Gripið fram í: Rangt.) Ég gerði ráð fyrir því að það væri einungis vegna þekkingarleysis og vegna þess að hún væri ný, ég skil slíka hluti, en það breytir ekki hinu að í samþykktum fundargerðum nefndarinnar kemur ákaflega skýrt fram hvernig hún lýsti því yfir áður en búið var að fara yfir umsagnir að það ætti að klára málið á þeim fundi. Þegar tókst að koma í veg fyrir það kallaði hún utan fundar, þegar við vorum að ganga út, a.m.k. ég, að það ætti að vera fundur daginn eftir. Ég mótmælti því harðlega. Hvers vegna? Vegna þess að við höfðum á þeim tíma verið boðin til að hlýða á forseta lýðveldisins, utanríkismálanefnd sérstaklega, flytja setningarræðu sína við upphaf „Hringborðs norðurslóða“. Svo getur hún kallað mig gamlan ref vegna þess að ég (Gripið fram í.) virði forseta lýðveldisins og reyndi að koma í veg fyrir að starfandi formaður utanríkismálanefndar sýndi honum vanvirðu og ósóma. Það gerði hún og það setti blett á heiður þingsins.

Að öðru leyti velti ég fyrir mér: Eru þetta nýju vinnubrögðin? Hv. þingmaður kemur hér og stærir sig af því að vera ein af nýja fólkinu. Er það nýja fólkið sem ætlar að vinna svona, brjóta þingsköp, vanvirða forseta? Ég spyr. (Forseti hringir.) Ef það er nýi tíminn, má ég þá, herra forseti, vera partur af gamla tímanum (Forseti hringir.) sem sýnir forseta Íslands virðingu? Það sem skiptir þó mestu máli er að ég virði rétt þingmanna og (Forseti hringir.) brýt ekki lög þingsins.