145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir spurninguna. Til að leiðrétta hér misskilning: Annaðhvort hef ég ekki verið nógu skýr í máli mínu eða ekki komið þessu öðruvísi frá mér en mér heyrist, að hv. þingmaður hafi annaðhvort misskilið mig eða ég einhvern veginn komið þessu frá mér vitlaust. Það sem ég var að vísa í eru reikningskúnstir meiri hluta hv. fjárlaganefndar. Það er með reikningskúnstum sem meiri hluti hv. fjárlaganefndar segir í nefndaráliti sínu, ég ætla að lesa upp úr því, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að hlutfallið hefur ekki verið reiknað rétt“ — þ.e. þessi 0,21% — „þar sem stór hluti útgjalda vegna hælisleitenda ætti að flokkast sem þróunaraðstoð. Ef rétt er reiknað er hlutfall Íslands um 0,25% af þjóðartekjum og enn hærra ef verkefni Þróunarsjóðs EFTA sem snúa að flóttamönnum eru meðtalin.“

Það er ekki ég sem er að leggja til þessa reiknireglu og það er alls ekki svo að það eigi að flokka þetta svona, að taka eigi hælisleitendurna með, en það er ekki óleyfilegt og sum ríki gera það. Ég er hins vegar alfarið á móti því að það sé gert, svo það sé alveg klárt. Ég er alfarið á móti því að hælisleitendur séu teknir einhvern veginn inn í framlögin til þróunarverkefna og mér finnst það bara ömurlegt að við séum með (Forseti hringir.) svona reikningskúnstum að reyna að toga hlutfallið sem við veitum í þessi mál upp.