145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel svo sannarlega að við sem rík þjóð þurfum að leggja miklu meira fjármagn í þróunarsamvinnu. Það er í mínum huga ekkert annað en eitt af því sem er kjarninn í minni pólitík, ég vil berjast fyrir því að auka jöfnuð. Það er ekki bara að auka jöfnuð hér á Íslandi heldur líka á heimsvísu. Það er það sem ég tel að við verðum að gera, sérstaklega núna á 21. öldinni. Verkefnin verða bara stærri. Það er einmitt svo gríðarlega mikilvægt að setja peninga í þessi grunninnviðastyrkingarverkefni í fátækum ríkjum, eins og það að byggja brunna. Maður er að heyra tölur um að konur sérstaklega gangi allt upp í 12, 14 tíma á sólarhring til að sækja vatn til heimilisins. Hættan er á að þetta muni bara versna með loftslagsbreytingum, sem við erum nú sem betur fer að reyna að berjast gegn.

Ég held því að gríðarlega mikilvægt sé að setja peninga í að styrkja innviðina í fátækari löndum. Svo er gríðarlega margt fólk á flótta í heiminum í dag, mjög margir vitanlega að flýja stríðsátök, en sumir eru líka að flýja fátækt og ömurlegar aðstæður sem fólk sér ekkert fram á að komast úr. Þess vegna fer þetta saman, annars vegar að setja peninga í að taka á móti hælisleitendum en það tengist svo þróunarsamvinnunni með því að gera skilyrðin í heimalandi fólks þannig að það þurfi ekki að fara af stað, það geti búið sér betri lífskjör (Forseti hringir.) heima fyrir. Þess vegna þurfum við að setja peninga í hvort tveggja, að taka á móti fólki en líka að gera það að verkum að fólk geti búið heima.