145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:06]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og hugleiðingarnar. Sá þingmaður sem hér stendur hefur reynt að gera ekki of miklar tilraunir til að kafa ofan í hugarheim annarra þingmanna. Ég átta mig ekki alveg á hvað aðrir þingmenn eru að hugsa og vil síður gera þeim upp skoðanir. Ég get svo sem tekið undir með hv. þingmanni að ég hefði óskað þess að sjá meiri vilja til að ná sáttum í þessu máli. Ég held að það skipti miklu. Þessi málaflokkur skiptir miklu meira máli en að hann sé einkamál einhverra, einkamál Íslendinga, einkamál stjórnarflokkanna eða stjórnarandstöðuflokkanna eða einhverra í samfélaginu eða pólitíkinni en ekki annarra. Sátt í málaflokknum eða í það minnsta samstaða er alger grundvöllur. Samstaða um það hvert eigi að stefna. Mér þykir miður að með þessari tillögu er ákveðin breyting í sögu íslenskrar þróunarsamvinnu. Það virðist stefna í ósamkomulags- eða ósamstöðuátt um málaflokkinn. Ég held því miður að það geti frekar skaðað hann en bætt hann.

Síðan minntist hv. þingmaður örlítið á hve framlögin hafa verið að lækka. Nú hef ég upplifað í samtölum við bæði embættismenn og stjórnmálamenn í Bretlandi, þar sem Bretar hækkuðu sitt hlutfall í þróunarsamvinnu einmitt í miðri kreppunni og litu á það sem sína siðferðislegu skyldu, (Forseti hringir.) að það hefur verið mikill innblástur fyrir mig og hvatning til að gera betur. Ég mun halda áfram að boða það fagnaðarerindi.