145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er þessi gamli draugur kominn aftur á dagskrá og ráðherrann situr yfir því máli og passar það eins og köttur passar afkvæmi sín (Gripið fram í: Dauða mús.) — eða dauða mús.

Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir yfirferð hennar á málinu. Hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og hefur mikla þekkingu á þeirri vinnu og því langar mig aðeins að fara aftur til ársins 2013, til síðustu daga þingsins í desember þar sem formaður og varaformaður utanríkismálanefndar stóðu fyrir alveg sérstökum niðurskurði á utanríkisráðuneytið, sem var óskiljanlegt. Sá niðurskurður kom inn með töluverðum hvelli, það var aukaniðurskurður og umfram það sem önnur ráðuneyti fengu á sig. Hæstv. utanríkisráðherra bar sig mjög illa þótt hann hafi nú ekki beint farið að grenja, en hann taldi sig beittan mjög miklu óréttlæti hvað það varðar. Ég hygg að það hafi nú verið svolítið til í því og veit ekki hvað hæstv. ráðherra hafði unnið til þess að það var gert á þessum tíma.

Í fyrra andsvari mínu langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því sem ég hef haldið hér fram, vegna þess að ég hef ekki séð nein rök fyrir að gera þetta, engin, þ.e. að ráðuneytið ásælist stofnunina vegna fjármuna hennar og vilji skella þeim inn í ráðuneytið. Síðan byrjar starfsmannavelta og svo framvegis og þá er (Forseti hringir.) meira að segja hægt að skipa menn í ráðuneytinu í störfin. Þeir eru ýmsir þar sem ekki eru með föst verkefni. Er hluti af markmiðinu með þessum gjörningi að ásælast peninga stofnunarinnar og fá meira fyrir ráðuneytið sjálft?