145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Skiptar skoðanir eru um hversu mikilvægt þetta mál er. Hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að þetta sé bara einhver svona smotteríis formbreyting. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði um fundarstjórn forseta fyrr í dag að það hefði enginn áhuga á málinu, enginn væri að fylgjast með þessu, þetta væri svo ómerkilegt. En við erum bara því miður nokkur hér sem teljum þetta mjög merkilegt og mikilvægt mál, þ.e. hvernig farið er með þróunarsamvinnu hér á landi. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur verið ein af þeim stofnunum sem hefur náð markmiðum sínum aftur og aftur. Í fyrsta lagi markmið um faglega og góða starfsemi sem hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar og í öðru lagi hefur hún sem stofnun verið gríðarlega vel rekin og ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins og fengið lof fyrir að halda sig innan ramma fjárlaga og hún hefur náð að sinna þeim verkefnum sem hún hefur ætlað sér svona að mestu leyti. Það er því ekki vandamálið að hún hafi fengið á sig harða gagnrýni út á sín faglegu störf né heldur er þetta vandræðastofnun fjárhagslega innan ríkisbatterísins.

Þess vegna er það þannig að við sem teljum mikilvægt að það sé viðurkennt innan stjórnkerfisins að þarna sé um að ræða gríðarlega viðkvæmt og mikilvægt fag sem eigi heima í sérstofnun, okkur finnst þessi stofnun og starfsemi léttvæg fundin með þeim ummælum sem ráðherrann hefur viðhaft hér og formaður nefndarinnar líka. Þetta er stórmál, hvernig við förum með þróunarsamvinnu. Það skiptir svo miklu máli að safna slíkri þekkingu. Það eru ekki margir með sérþekkingu á þessu sviði ef við skoðum heiminn allan og hvað þá Ísland. Það eru ekki margir einstaklingar. Þess vegna er mikilvægt að safna þeirri þekkingu saman. Það kom út skýrsla að ég held þegar de Cuellar var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þar sem dregin voru fram söguleg mistök í þróunaraðstoð sem gerð hafa verið þegar menn töldu enn lykilinn að uppbyggingu í þróunarríkjum að koma með stór verkefni utan frá inn í samfélögin, stórar verksmiðjur og ýmislegt slíkt. Það skilaði sér síðan á endanum í því að menn höfðu raskað samfélagsgerðum ýmissa viðkvæmra samfélaga í þróunarlöndunum þannig að ekki varð aftur snúið. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þessi fagþekking sé til staðar, þ.e. hvernig menn nálgast samfélögin sem þeir vinna í. Niðurstaðan hefur verið sú að það skipti mestu að menn stuðli að breytingum innan frá, þ.e. að unnið sé með heimafólki að því að gera breytingar og þannig sé stuðlað að eðlilegum, heilbrigðum innri vexti sem byggir á grunngerð samfélaganna þar sem verið er að vinna. En ekki vestrænum hugmyndum um stórar verksmiðjur eða stór verkefni sem öllu eiga að umbylta.

Þróunarsamvinnustofnun hefur tekist þetta ótrúlega vel. Í skýrslu DAC-nefndarinnar, undirstofnunar OECD, var gerð úttekt á þróunarsamvinnunni þegar við gengum þar inn og þar kemur þetta einmitt fram. Þróunarsamvinnustofnun er líka sérstaklega hrósað fyrir hversu valddreifð hún er í ákvarðanatöku og hversu mikið svigrúm starfsmenn og sérfræðingar Þróunarsamvinnustofnunar hafa í þeim útstöðvum til þess einmitt að taka ákvarðanir á staðnum byggðar á þeirri hugmyndafræði að verið sé að vinna með fólkinu á staðnum og valdefla það á þeirra forsendum.

Peningar sem okkur finnast kannski ekki miklir en eru stórir hjá móttakandanum geta haft mjög mikil áhrif. Þeir geta líka haft skaðleg áhrif. Það er hægt að hræra þannig upp í þeim samfélögum að þau lendi í vanda í framhaldinu. Samfélagsgerðirnar þar eru bara af allt öðrum toga en hér. Það ber að virða og reyna frekar að styrkja samfélögin út frá þeim forsendum en okkar eigin. Fólk er þjálfað í þessu sem nemur slík fræði öll sömul. Við höfum áhyggjur af þessu þegar stofnunin er beinlínis lögð af. Þegar við erum með stofnun utan um málaflokk sem krefst svona mikillar sérþekkingar er það ekki þannig að við séum að segja að ef málaflokkurinn komi inn í ráðuneytið séum við að vantreysta starfsmönnum þar til að fara með þetta. Það snýst miklu frekar um að málaflokkurinn er varinn faglega. Allt það starfsfólk og sérfræðingar með þessa sérþekkingu eru varin faglega inni í stofnun, þ.e. þau setja mörkin og ráða stefnu sinni að mestu leyti. Ég verð að segja alveg eins og er að það angrar mig alveg gríðarlega hversu lítið formaður nefndarinnar og ráðherrann hafa gert úr málinu, þetta sé bara einhver formbreyting og enginn hafi áhuga á þessu í samfélaginu, bara einhverjir kverúlantar inni á þingi séu að velta þessu fyrir sér, svona er talað, miðað við það finnst mér alveg ótrúlegt hvað mikill þungi er á að koma málinu hér í gegn. Það er alveg með hreinum ólíkindum. Það er lögð slík áhersla á málið að ég hef ekki séð einu sinni stór stefnumál ríkisstjórnarinnar lögð fram og borin í gegn af jafn miklum ákafa.

Þess vegna gerist það að maður verður skeptískur. Maður fer að velta fyrir sér hvað búi þarna að baki. Hvers vegna keyra menn mál fram með þessum hætti? Sérstaklega á málasviði eins og þessu. Málasviði sem okkur hefur tekist að halda friðinn pólitískt um og ráðherra málaflokksins núna ætlar að vera svo ábyrgðarlaus að hann er til í að rjúfa friðinn um þróunarsamvinnu á Íslandi til að koma í gegn einhverri formbreytingu. Hver trúir svoleiðis vitleysu? Það er nefnilega þannig að hér er um eðlisbreytingu að ræða. Það er engin formbreyting í þessu. Þegar málaflokkur er tekinn með þessum hætti inn í ráðuneyti þá breytist eðlið. Þá er ekki lengur þessi vörn utan um hina faglegu starfsemi heldur er það þannig að pólitískir duttlungar eru komnir inn í málaflokkinn. Ráðherrann er á næstu skrifstofu. Ráðherrann leggur línurnar. Hann getur haft gríðarleg áhrif á það sem þar er gert og það aftur síðan grefur undan faglegu starfi og faglegri umgjörð þeirra sem í þessu vinna og getur gert starf þeirra algerlega óbærilegt. Við erum að mótmæla þessu. Þetta er ekki bara einhver sérviska einhverra einstaklinga hér. Við erum öll búin að vera að tala um þetta, þingmenn stjórnarandstöðunnar sem höfum talað í þessu máli. Við erum búin að reyna og reyna að fá áheyrn hjá stjórnarflokkunum gagnvart þessu máli. Við höfum lagt fram fleiri, fleiri tillögur um málamiðlanir. Það er fúlsað við þeim öllum af því að það á einfaldlega að trukka þessu svona í gegn. Við höfum lagt til að beðið sé eftir jafningjamati frá DAC sem á að fara fram á næsta ári. Í framhaldi af því fari þverpólitískur hópur í að taka ákvarðanir um framvindu og framhald. Því var hafnað. Búið er að bjóða að gildistímanum á málinu verði frestað fram yfir næstu kosningar. Því var líka hafnað. Núna hefur verið lögð fram tillaga af hálfu fulltrúa okkar í nefndinni, tillaga sem ég tel að í raun og veru gangi allt of langt í áttina að ráðherranum. Allt of langt. En það sýnir hversu mikið við erum tilbúin að leggja á okkur til að reyna að skapa frið um þennan málaflokk, þ.e. að þetta verði beinlínis stofnun inni í ráðuneytinu. Hvað vill ráðherrann meira? Það koma engar málamiðlunartillögur frá honum. Ráðherra málaflokksins er svo ábyrgðarlaus gagnvart málaflokknum að hann vill frekar vera í stríði með málaflokkinn, sprengja upp alla sátt, en að hlýða á tillögur sem við höfum lagt fram. Hvað á þetta að þýða? Hvers vegna? Er það þessi ofboðslega djúpstæða andúð á flokkunum sem tilheyra minni hlutanum og fyrrverandi ríkisstjórn að hann getur bara ekki hugsað sér að eiga samstarf við okkur á einu einasta málasviði? Ekki einu sinni þróunarsamvinnu. Ja, lítill er sá maður sem ekki er tilbúinn til að eiga samtal við okkur um þær tillögur sem við höfum lagt hér fram. Og megi ráðherrann eiga skömm fyrir þetta. Fullkomna.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að maður sem er í ráðherrastóli sem hefur ekki áhuga á að ræða við fólk um sjónarmið þeirra í málaflokki sem hann fer fyrir og hvað þá eiga samtal um tillögur sem ganga langt til móts við hann þó að við höfum aðrar hugmyndir, hann er ekki starfi sínu vaxinn. Hann er bara, virðulegi forseti, fyrst og fremst í starfi sínu til þess að kynda ófriðarbál. Það er ekki það besta sem gert er fyrir þennan málaflokk. Framganga ráðherrans í málinu hefur gengið algerlega fram af mér. Svo koma menn hingað upp og reyna að halda því fram að málið sé léttvægt, skipti ekki máli og við séum hér öll að elta dellu einhvers eins þingmanns. Það er bara ekki þannig. Það eru margir hér í salnum sem hafa verið að reyna að koma því á framfæri að þeim stendur ekki á sama um málaflokkinn og eru búnir að biðja fallega en líka ákveðið þegar ekki hefur verið á þá hlustað um áheyrn ráðherrans um málaflokkinn. Hvort hann sé tilbúinn að setjast niður og ræða hann. Nei. Það kemur ekki til greina. Og með þennan stóra meiri hluta á þingi sem ráðherrann hefur er hann að beita ofbeldi í málinu. Eftir því verður munað.

Virðulegi forseti. Ég er alveg ótrúlega leið yfir því á hvaða vegferð ráðherrann er með málaflokkinn. Ekki bara eru menn búnir að taka ákvörðun um að halda okkur niðri þegar kemur að framlögum til þróunarmála, nei, núna á að taka þessa faglegu stofnun þar sem safnast hefur saman mikil þekking þeirra fáu einstaklinga sem hana hafa hér á landi og grauta henni inn í verkefni ráðuneytisins. Hann hefur ekki kynnt eina einustu stefnu eða farið yfir það með hvaða hætti það verði gert og hvernig þetta fagsvið verði varið fyrir pólitískum duttlungum hvers tíma. Ekki treysti ég ráðherranum eftir þessa umræðu og eftir það hvernig málið hefur farið hér í gegn til að vera faglegur á þessu sviði. Það geri ég ekki. Menn sem eru ekki einu sinni tilbúnir að ræða einhvers konar málamiðlun um þróunarsamvinnu, hvers konar menn eru það?

Það fýkur í mann yfir þessu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem menn koma svona fram. Þegar einhver gagnrýnir það sem þeir gera, þessi stjórnarmeirihluti með 38 þingmenn, fær hann á sig stimpil. Þá er settur einhver svona stimpill á hann. Þessi er bara í einhverjum leiðindum. Já, já, þau eru búin að vera að tala um fjárlögin af því að það er einn maður í stjórnarandstöðunni sem vill þróunarsamvinnuna út og er búinn að tala hin til. Auðvitað er þetta ekki svona. Þetta er hugsjónamál okkar. Þarna kristallast líka hugmyndafræðilegur ágreiningur þessara tveggja pólitísku arma, vinstri og hægri. Okkur er ekki sama. En ykkur er sama. Þess vegna hafið þið keyrt málaflokkinn út í þennan skurð.