145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú. Það er ég algerlega sannfærð um. En talandi um kostnað er annað sem ég er að átta mig á í þessari umræðu. Hv. þm. Jón Gunnarsson kom hér upp í dag undir liðnum um fundarstjórn forseta og sagði eitthvað á þá leið að af þessum breytingum ætti að hljótast mikið hagræði og hagræðing. Ráðherrann hefur hins vegar haldið því fram að svo verði ekki. Það verði engin breyting, þetta sé svo agalega lítið mál. En samt virðist málið hafa verið selt þingmönnum stjórnarflokkanna þannig að út úr þessu eigi að koma einhver hagræðing. Það er einhvern veginn verið að draga fólk á asnaeyrunum með einhverjum upplýsingum sem henta hverju sinni. Einn fær að vita að þetta sé hagræðing til að hann styðji málið, öðrum er sagt til að reyna að friðþægja hann að að þessu verði engin hagræðing, þarna sé bara verið að flytja verkefni úr stofnun inn í ráðuneyti. En ekkert af þessu liggur fyrir. Það mun kosta fé að flytja stofnun inn í ráðuneyti. Að sjálfsögðu. Sá kostnaður kemur úr mörgum áttum.

Það eru mjög misvísandi upplýsingar í þessu máli sem gera mig tortryggna gagnvart tilganginum. Kannski hafa menn bara engan áhuga á þróunarsamvinnu og sjá þarna einhverja leið til þess að friðþægja hagræðingarhópinn því að hann hefur ekki fengið neinar af sínum tillögum í gegn, en nú skuli hæstv. ráðherra Gunnar Bragi taka eitthvert eitt verkefni af listanum og láta af því verða. Ég held að það sé meira þannig. Svo mun það grautast saman við önnur verkefni í ráðuneytinu og sú þróunarsamvinna sem Þróunarsamvinnustofnun hefur verið að vinna til dagsins í dag og er alþjóðlega viðurkennd mun hverfa eins og hún er. Því hef ég áhyggjur af.

Virðulegi forseti. Hvað mundu menn segja ef svona skýrt afmarkað fagsvið eins og þetta, t.d. vegagerð (Forseti hringir.) yrði nú tekið inn í innanríkisráðuneytið?