145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo sannarlega og það verður tekið eftir þeim minnisvarða sem þar verður reistur í næstu fjárlögum. Hv. þingmaður dregur fram að vinnubrögðin í þessu máli og öðrum eru með þeim hætti að menn vanda sig ekki. Það er bara búið að taka ákvörðun og bíta eitthvað í sig og þá gera menn það sama hvað það kostar. Mönnum er sama þótt þeir rjúfi frið um mikilvæga málaflokka og mönnum er sama um kostnaðinn. Það er bara einhver reikningur sem þeir fá þá í hausinn síðar. Mönnum er líka algerlega sama um þá starfsemi sem þeir gera breytingar á, bara ef þeir fá sínu framgengt. Þessir 38 þingmenn í stjórnarmeirihlutanum vaða í villu. Þeir koma hér upp hver með sínar upplýsingarnar um það af hverju þeir styðja þetta mál. Einn segir að það sé svo fín hagræðing að þessu, annar kemur upp og segir: Starfsemin verður óbreytt, það verður engin hagræðing að þessu, hvers vegna hafið þið þá áhyggjur af þróunarsamvinnu? Eftir stöndum við hin sem er alls ekki sama um þennan málaflokk og erum með rosalegar áhyggjur af því í hvaða höndum þessi málaflokkur er.

Það hefur verið hlegið að því hér þegar ég hef líkt Vegagerðinni og Þróunarsamvinnustofnun saman. Fyrir mér eru það jafn mikilvægar stofnanir. Þær eru jafn settar. Þetta er algerlega sambærilegt því að báðar sinna gríðarlega sérhæfðum verkefnum þar sem safna þarf saman þekkingu, þar sem þekkingin er ekki hjá mörgum. Það þarf að safna henni saman og það er mjög dýrmætt að halda í hana. Ég held að menn mundu nú segja eitthvað ef ákvörðun (Forseti hringir.) væri tekin um að taka Vegagerðina og grauta henni inn í starfsemi innanríkisráðuneytisins. Alveg eins líður mér gagnvart þessu máli.