145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Nú finnum við fyrir mjög eindregnum ásetningi hæstv. utanríkisráðherra að keyra þetta mál fram enda þótt fram hafi komið mjög vel rökstudd og víðtæk gagnrýni á frumvarpið af hálfu stjórnarandstöðunnar og í samfélaginu almennt, sem sagt ekki bara hér innan dyra heldur utan dyra einnig.

Ef svo fer sem tölfræðin segir okkur, að það gæti vel hent að þetta frumvarp yrði samþykkt, þá kemur dagur eftir þennan dag. Sér hv. þm. Össur Skarphéðinsson einhvern möguleika eða kost í stöðunni að þessari ákvörðun yrði snúið til baka? Ég geri mér grein fyrir því sem formaður BSRB til margra ára að slíkt er ekki auðvelt. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þegar ráðist er í kerfisbreytingar er erfitt að vinda ofan af þeim, á nákvæmlega sama hátt og það hefur áhrif á starfsemi stofnunar og líf starfsmanna þegar þær eru teknar upp með rótum og skipulagi breytt, en mig langar til að heyra álit hv. þingmanns á þessu eða vangaveltur hans um möguleika í þessu efni. Hvað gæti morgundagurinn borið í skauti sér að þessu leyti?