145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gáfulegasta sem sagt hefur verið í þessari umræðu voru orð hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar sem sagði: Það á ekki að skakast í stofnunum sem hafa staðið sig vel. Hann er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur tekið til máls um málið og hann gagnrýndi það. Ég er sammála því. Það á hvorki að skakast í stofnuninni né í málaflokknum.

Hv. þingmaður orðaði það svo að það væri einbeittur vilji ráðherrans að knýja þetta mál fram. Það kann vel að vera, en þá verða ég að draga hér eina markalínu og hún er þessi: Þetta mál kemur hæstv. ráðherra ekki lengur við. Málið er á forræði þingsins. Það er þingið sem á að ákveða þetta.

Það vill svo til að formaður utanríkismálanefndar, sem nú hefur reyndar hopað af hólmi, er sú okkar allra sem sitjum í þinginu sem hefur haft hæst um það, reyndar síðustu tíu árin, að ný vinnubrögð þurfi í stjórnmálunum. Það er rétt að rifja það hér upp að á afdrifaríkasta degi í stjórnmálaferli hennar gaf hún yfirlýsingu þar sem hún sagðist vilja vinna með fólki, leita sátta og velta upp nýjum kostum. Það hefur komið í ljós að í þeim efnum er heldur ekkert að marka hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún hefur varla tekið þátt í umræðum og ekki svarað fyrirspurnum sem til hennar er beint.

Spurningu hv. þingmanns um hvað morgundagurinn ber í skauti sér svara ég með þessum hætti: Ef það fer svo, eins og allt bendir til, að þetta verði samþykkt þá verða menn að sjá hvaða reynsla kemur á málið. Það getur auðvitað ekkert fylgt af okkar hálfu nema góðar óskir í nýjum leiðangri. En ef í ljós kemur að sá kvíðbogi sem við höfum borið fyrir málinu reynist réttur um að þekking glatast, hún þynnist, hún byggist ekki áfram upp eða því sem hefur verið haldið hér fram að málaflokkurinn verði ruslakista fyrir starfsmenn sem eru á millum pósta og ekki hægt að finna neitt starf fyrir — ég veit af fyrri störfum að það kemur fyrir og ég veit hvernig menn hafa gert þetta í ráðuneytinu — þá þurfum við auðvitað að skoða málið aftur (Forseti hringir.) og þá finnst mér einboðið (Forseti hringir.) að við förum sömu leið og Ítalir, hugsum málið (Forseti hringir.) upp á nýtt og komumst að þeirri niðurstöðu að íslenska fyrirkomulagið núverandi er best.