145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er að mörgu leyti búin að vera athyglisverð umræða. Mig langar til að víkja að einum þætti sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi viðveru ráðherra og þingmanna í þeirri nefnd sem fjallar um málið. Það er alveg rétt sem hann segir að eftir að mál er komið inn til þingsins þá er það á forræði þingsins og á forræði þeirrar nefndar sem um málið fjallar. Auðvitað eigum við að horfa til þess fyrst og fremst að formenn nefnda og nefndarmenn séu viðstaddir og síðan aðrir eftir atvikum sem vilja taka þátt í umræðunni. Hins vegar og ég vék að því aðeins í umræðunni um fjárlögin skiptir líka máli að hafa ráðherra til staðar einfaldlega vegna þess að þeir eru upphaflegir ábyrgðarmenn mála. Þeir þekkja markmiðin, þeir þekkja umgjörðina um smíði málanna og á endanum eru það þeir sem koma að allri málamiðlunarvinnu. Þannig er samspilið á milli framkvæmdarvaldsins og þingsins. Þess vegna þótti mér góður bragur á því þegar hæstv. menntamálaráðherra kom hingað til þingsins á lokastigum fjárlagumræðunnar að okkar ósk til þess að við fengjum sýn hans á það sem undir ráðuneyti hans heyrði. Þá var það náttúrlega fyrst og fremst eins og við þekkjum öll Ríkisútvarpið sem kom þar til álita.

Að sama skapi þótti mér gott að sjá til þess að hæstv. utanríkisráðherra var hér og er í húsinu og hefur fylgst með þessari umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég las það úr andlitssvip hans að hann þurfti talsvert á sig að leggja til að vera við umræðuna og hlýða á það sem gagnrýnendur frumvarps hans höfðu fram að færa. En ég hygg að það hefði verið gott ráð hjá honum að koma til umræðunnar á fyrri stigum. Þetta mál á sér langan aðdraganda í þinginu. Það hefur áður komið fram og umræðan hefur verið löng og það sem má læra af umræðunni er að hún hefur einkennst af vaxandi þunga. Sífellt fleiri hafa komið til umræðunnar með sín sjónarmið og það hefur mátt merkja á henni að það er vaxandi sannfæring fyrir því að málið sé ekki þess eðlis að við eigum að hrapa að því að afgreiða það. Það stendur enn af minni hálfu að svo er.

Mig langar þessu næst að fara aðeins inn á mikilvægi stofnanabreytinga af þessu tagi og þá með hvaða hætti eigi að bera sig að við þær. Í grófum dráttum eru tvær línur uppi. Annars vegar er sú hugsun að hlutverk Alþingis eigi fyrst og fremst að vera almenn stefnumótun. Síðan eigi það að vera framkvæmdarvaldsins að sjá um hvernig þeirri stefnu er komið í framkvæmd innan þess ramma sem fjárveitingavaldið ákveður, stofnanaleg umgjörð eigi ekki að skipta máli. Þetta hefur iðulega verið notað af hálfu þeirra sem hafa viljað einkavæða opinbera þjónustu. Þeir hafa sagt: Það sem skiptir þegnana máli er tvennt, það sem tekið er upp úr þeirra vösum inn í skatthirslurnar, hvernig farið er að því og svo hins vegar að peningarnir nýtist í samræmi við það sem Alþingi ákveður, við þá stefnu sem mótuð er af Alþingi. Þetta er annar þráðurinn. Síðan er það hinn þráðurinn sem segir: Stofnanalegt umhverfi getur skipt máli. Það er ekki hægt að alhæfa um það, alls ekki. Það skiptir máli hvernig stofnanir eru gerðar að umgjörð utan um samkeppni eða samvinnu eftir atvikum.

Við höfum fengið núna upp á okkar borð hugmyndir hæstv. heilbrigðisráðherra um að peningar eigi að fylgja sjúklingi. Þetta er mantra frá Milton Friedman og nýfrjálshyggjunni sem er að reyna að taka skipulagsvaldið frá samfélaginu og færa það yfir til markaðshyggjunnar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað fyrir þessu. Nú erum við að sjá fyrstu merki þess að hann er að byrja að skipuleggja heilbrigðiskerfið með þá hugsun í huga. Þarna skiptir miklu máli hvaða fyrirkomulag við höfum á þeim stofnunum sem eiga að ná fram þeim markmiðum sem löggjafinn setur og síðan fjárveitingavaldið.

Í anda fyrri hugsunarinnar eru breytingar sem voru gerðar á stjórnarráðslögunum síðastliðið vor í kjölfar deilna um Fiskistofu eins og við munum. Eftir þær breytingar sem gerðar voru á lagabálknum er núna kveðið á um það í 6. gr. laganna að heimilt sé að setja á fót sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir sem eru starfræktar sem hluti af ráðuneyti. Nú vitna ég í 6. gr., með leyfi forseta:

„Slíkum starfseiningum stýrir embættismaður, í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.“

Ég lagðist algerlega gegn þessu þótt ég telji að það eigi að vera mikill sveigjanleiki í hinu opinbera kerfi og því kerfi eigi stöðugt að vera hægt að breyta og laga að breyttum þörfum og óskum og viðhorfum sem uppi eru, það á stöðugt að vera hægt. Þegar gerðar eru hins vegar breytingar á stofnanaveldinu eða stofnanakerfinu sem hafa áhrif á starfsemina þá á það að koma inn til Alþingis sem sníður þennan stakk. Þar er kominn samanburðurinn sem ég var að taka upp með heilbrigðisþjónustuna. Þar skiptir stofnanaþátturinn skiptir máli um sjálfa framkvæmd stefnunnar. Þessu hafa menn haldið fram í tengslum við þetta frumvarp um Þróunarsamvinnustofnun. Menn telja að það skipti máli hvaða háttur er hafður á í þessu efni, hvort um er að ræða afmarkaða stofnun sem sinnir hlutverkinu eða hvort hún er hluti af ráðuneyti til að mynda. Ég held að þetta geti skipt máli. Menn hafa verið að taka það upp hér líka í þessari umræðu að við erum með veigamikla starfsemi eins og Vegagerðina sem starfar sjálfstætt samkvæmt samgönguáætlun, samkvæmt fyrirmælum sem Alþingi og framkvæmdarvaldið setur að öðru leyti, en hún er aðgreind og sjálfstæð.

Mig langar til að víkja að einum þætti sem ég held að skipti máli í stofnanalegu tilliti. Ég hef reyndar gert það áður. Þegar landbúnaðarráðuneytið var fært inn í atvinnuvegaráðuneytið á sínum tíma þá held ég að flestir hafi séð skynsemina í því. Það er skynsamlegt að vera með stjórnsýslu atvinnunnar almennt undir sama þaki, undir sömu regnhlíf, að vera þar með sjávarútveginn, vera þar með landbúnaðinn og jafnvel með iðnaðinn, hafa það allt undir einni regnhlíf. Það er að mörgu leyti skynsamlegt. En að öðru leyti ekki. Að hvaða leyti gæti það verið vanhugsað? Jú, það verður nefnilega eðlisbreyting þegar lagt er niður nokkuð sem heitir landbúnaðarráðuneyti. Landbúnaðarráðuneytið hefur bara eitt hlutverk, það er að vera stjórnsýsluleg umgjörð utan um landbúnaðinn í landinu. Það er ákveðin viðurkenning á landbúnaðinum sem mikilvægs hluta af efnahagslífi okkar að hafa utan um hann tiltekið ráðuneyti sem hugsar síðan um ekkert annað en hann. Mér finnst þetta vera þáttur sem er alveg þess virði að hugleiða, vegna þess að þetta tengist umræðuefni okkar hér sem er Þróunarsamvinnustofnun. Það er stofnun sem hefur bara þetta tiltekna hlutverk, að sinna þróunarvinnu, ekki allri heldur að hluta til, og hún á ekki að hugsa um neitt annað en það. Í því er fólgið nokkuð sem Bretar kalla „commitment“, þ.e. að menn hafa ákveðna skuldbindingu og þetta einkennir síðan allt starfið vegna þess að þetta er eina markmiðið. Það kynni hins vegar að breytast þegar komið er með starfsemina inn í annað ráðuneyti.

Hæstv. forseti. Nú líður að því að tími minn renni út, en ég hefði haldið að stjórnarmeirihlutinn gæti farið að þeirri ósk sem fram hefur komið við þessa umræðu af hálfu þeirra sem þekkja til starfs sem fer fram t.d. á vegum OECD um skipulag í þessum efnum og beðið eftir hvað kemur út úr athugunum þeirra. Það hefur komið fram í umræðunni að nokkuð sem heitir DAC-nefnd, það er nefnd sem starfar á vegum OECD, er að gera úttekt á starfsemi í ýmsum ríkjum sem er sambærileg við það sem við erum að fjalla um núna. Eftir því sem ég skil málið þá á þessi úttekt að fara fram á komandi ári, árinu 2016, og liggja fyrir eftir það. Við höfum fengið ábendingar um það í þessari umræðu að margir horfi til þess fyrirkomulags sem við höfum á Íslandi sem eftirsóknarverðs. Ég man ekki betur en það væri vísað til Ítalíu í þeim efnum, að Ítalir væru að horfa til okkar fyrirkomulags. Ef það er nú þannig að þetta er ekki mál sem liggur lífsins á að fá í gegn — það eru engar slíkar stórvægilegar breytingar sem það hefði til bóta, þetta á t.d. ekki að spara peninga, svo dæmi sé tekið — og ef það er engin hætta á ferðum að bíða og ef það er svo í annan stað að mikil gagnrýni er á málið innan sem utan Alþingis og ef það er verið að vinna þessa samanburðarvinnu erlendis, væri þá ekki gott ráð að hinkra við og bíða og kanna hvað kemur út úr þeim viðræðum?

Annar kostur væri sá að gefa sér tiltekinn tíma, að við gæfum okkur einhverja mánuði, segjum fyrir þinglok, og reyna að ná sáttum, þverpólitískri sátt um þetta mál innan veggja þingsins. Það hefur vissulega komið til kasta utanríkismálanefndar og segja má sem svo að þar sé verkefnið að komast að niðurstöðu og leita eftir þverpólitískri samstöðu um hugsanlega sátt í málinu. En ég hef það á tilfinningunni að það hafi ekki verið í boði nokkru sinni. Mér hefur fundist þetta vera ansi mikið stál í stál. Það má hugsanlega gagnrýna okkur í stjórnarandstöðunni fyrir að hafa uppi svipuð sjónarmið, svipaða læsta stöðu í málinu. En þó hefur örlað á því undir lok þessarar umræðu eða á seinni stigum hennar að stjórnarandstaðan hefur verið að tefla fram ýmsum hugmyndum, ýmsum millileiðum í þessu efni.

Ég vil nota þessar fáu sekúndur sem eftir eru til þess að hvetja hæstv. utanríkisráðherra, hvetja hæstv. utanríkismálanefnd og verkstjórann þar á bæ að íhuga það tilboð sem hefur komið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar um að við reynum að ná þverpólitískri sátt í máli sem á engan hátt getur kallast flokkspólitískt. Hér hafa menn mismunandi skoðanir og mismunandi viðhorf þvert á stjórnmálaflokka. Það eru engar skýrar línur í þeim efnum þegar kemur að stjórn og stjórnarandstöðu. Það sem hins vegar hefur gerst er að málinu hefur verið teflt inn í þann farveg. Það tel ég ekki hafa verið hyggilegt.