145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona svo sannarlega að ég hafi ekki rétt fyrir mér í þessu máli. Ég vona svo sannarlega að það liggi enginn hvati nokkurs staðar til þess að haga utanríkispólitíkinni með þeim hætti að viðskiptahagsmunir okkar Íslendinga fari að vega þyngra en hagsmunir fátækra þjóða. En ég tel aukna hætta á því með því að flytja málaflokkinn inn í ráðuneytið þar sem utanríkismál eru að öðru leyti. Það verður þar með styttra á milli málaflokka. Eins og ég hef nokkrum sinnum bent á í umræðunni þá gerir millifyrirsögnin í athugasemdunum með sjálfu frumvarpinu mig sérstaklega órólega yfir þessu þar sem hreinlega stendur, með leyfi forseta:

„Sterkari tengsl milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála.“

Mér finnst þetta gefa ádrátt um að eitthvað meira liggi undir. Það kom skýrt fram hjá þeim sérfræðingum sem komu fyrir hv. utanríkismálanefnd að þessu tvennu mætti alls ekki blanda saman, þróunarsamvinnu þyrfti alltaf að framkvæma á forsendum fátæka ríkisins. Þannig vil ég hafa það. Þannig tel ég að það eigi að vera. Ég er hrædd um að Íslands sé mögulega að færast inn á grátt og vont svæði.