145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þessi dagur byrjaði með því að hér féllu, að mér þótti, digur svigurmæli í garð stjórnarandstöðunnar, kannski sérstaklega í garð stallbróður míns, hv. þm. Helga Hjörvars. Hér voru menn ásakaðir um að hafa gengið á bak meintum samningum sem þó var alveg ljóst af umræðum í utanríkismálanefnd, þar sem voru staddir tveir af þeim sem áttu aðild að hinum meintu samningum, að það voru mismunandi skoðanir og ég fullyrði líka að í hópi stjórnarliða sem komu þar að var alveg ljóst að mönnum þótti fátt í gadda slegið. Eigi að síður var því haldið fram af mönnum að hv. þm. Helgi Hjörvar hefði svikið samkomulag um að menn mundu afgreiða þetta mál fyrir lok haustþings.

Ég vil benda á þá staðreynd, herra forseti, að okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefði verið í lófa lagið að beita einhvers konar vísi að þinglegu ofbeldi í þá veru sem menn sáu hér á síðasta kjörtímabili, að skipuleggja að minnsta kosti þriggja og hálfs dags málþóf um þetta mál. Það hefði ekki verið nokkur vandi fyrir reynslubolta eins og er að finna í hópi stjórnarandstöðunnar að láta stjórnarliðið hanga á snúrunni í að minnsta kosti á fjórða sólarhring. Núna er þessari umræðu að ljúka, herra forseti, án þess að liðið hafi sex klukkustundir. Þá finnst mér í lok dags að þeir hv. þingmenn stjórnarliðanna sem tóku til máls með þeim hætti um formann þingflokks Samfylkingarinnar sem þeir gerðu í morgun að þeir ættu að minnsta kosti í einrúmi að fara og horfa í spegil og skammast sín pínulítið og síðan eiga þeir að leita hv. þm. Helga Hjörvar uppi og biðja hann afsökunar.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að hann hefur skoðanir sem hann hefur fyllilega rétt til að hafa, eins og ég hef alltaf sagt. Lögmæti skoðana hans dreg ég ekkert í efa en hann verður samt að færa rök fyrir þeim og mér finnst hann hafa flutt ákaflega léleg rök fyrir því af hverju ekki er rétt að taka í framrétta sáttarhönd hjá okkur. Hæstv. ráðherra segir að honum finnist það of lítil breyting. Ja, herra trúr, það er þó breyting sem tryggir í fyrsta lagi að það verður ekki um neinn tvíverknað að ræða. Í öðru lagi verður ljóst að þeir sem sinna þróunarsamvinnu og ráðuneytið ganga samræmt að því er varðar utanríkisstefnuna. Í þriðja lagi gerir það honum kleift að hafa fullt fjárstjórnarvald og haga málum eins og hann vill og ná þannig fram því hagræði sem hann telur sig ná en fjármálaráðuneytið telur engan möguleika að ná fram. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Þetta hefði svarað öllum þeim þörfum sem hæstv. ráðherra hefur sagt að hann hafi.

Ég held hins vegar að þetta sé allt saman tóm vitleysa. Ég held ekkert að ráðherrann hafi neinar sérstakar þarfir í þessu. Ég held að niðurstaðan í þessu máli hafi verið gefin fyrir fram og að allt hitt hafi verið sjónarspil. Ég er þeirrar skoðunar, sérstaklega núna þegar við leggjum fram tillögu sem er nánast eins og klippt út úr skýrslu Þóris Guðmundssonar.

Svona er þetta bara og við höfum alltént átt nokkuð heiðarlega umræðu í dag og málefnalega og ég er þeirrar skoðunar að þessi langi ferill hafi að minnsta kosti leitt fram, með ítarlegri rannsókn í utanríkismálanefnd, að til eru aðrir möguleikar. Það eru sáttamöguleikar í málinu. Hvað stendur þá eftir þegar upp er staðið? Jú, það að formaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, er sá þingmaður sem hér er stöðugt með á vörunum einhvers konar yfirlýsingar um að það þurfi nýja tegund af stjórnmálum og að hún sé hin nýja tegund af stjórnmálamanni. Þessar yfirlýsingar skipta mig máli. Nú sjáum við hvernig nýju stjórnmálin líta út í augum hv. formanns utanríkismálanefndar. Þegar menn koma hér, leggja sig nánast á hnén fyrir framan hana, koma með sáttatillögu sem nær yfir öll mismunandi sjónarmið í málinu hverfur hún. Þá er hún ekki hér, þá hlustar hún ekki og hún svarar engu. Ég er hér með bunka af tilvitnunum en ég ætla ekki að þreyta hana með.

Í öðru lagi, herra forseti, og það er það sem skiptir máli fyrir þingið, er hér talað um að of mikið ósætti sé í þinginu og að menn þurfi að reyna að vinna saman. Þegar stjórnarandstaðan kemur svo með ítarlega tillögu, býður samkomulag, gengur svo langt að sumir aðilar að tillögunni til sátta eru henni nánast ósammála vegna þess að þeir telja svo mikið gefið eftir er ekki bara slegið á þá hönd heldur er líka bitið í hana. Lærdómurinn er (Forseti hringir.) að það þýðir ekkert að bjóða þessu stjórnarliði frið vegna þess að það kýs frekar ófrið.