145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir framsögu hans og ágæta samvinnu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég rita ekki undir þetta álit sökum grundvallarmunar á skoðunum nefndarmanna á því hvernig skattkerfið eigi að vera uppbyggt og hvaða áherslur eigi þar að vera í fyrirrúmi og skrifa undir nefndarálit 1. minni hluta ásamt hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í nokkur atriði í nefndaráliti meiri hlutans. Sumum hverjum þeirra er ég sammála og öðrum ekki. Mig langar að spyrja um kostnað við þær breytingar sem hér eru lagðar til. Sérstaklega langar mig að spyrja um kostnaðinn við þá breytingu sem lögð er til í fækkun skattþrepa sem hv. þingmaður fór yfir, sem vísar að því að áfram verði heimilt að færa tekjur milli skattþrepa og lagt er til að hætt verði við að fella brott 4. tölulið 1. mgr. 66. gr. laganna og honum breytt til samræmis við fækkun þrepa, þ.e. að heimilt verði að færa tekjur milli þrepa hjá samsköttuðum einstaklingum þó að tekjumörkin séu orðin önnur í kjölfar þess að þrepum hefur verið fækkað.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir þetta mál hér um hvað felst í því þannig að ég ætla ekki að endurtaka það, en spyr hvort búið sé að reikna út kostnaðinn við þetta, og hver hann þá er. Enn fremur langar mig að spyrja hvort aðrir kostnaðarliðir hafi verið reiknaðir. Hér er til dæmis ágætistillaga, sem ég er sammála, um afnám tolla á dömubindi og tíðatappa, en ég óska líka eftir upplýsingum um kostnaðinn við afnám tolla á þær vörur, sem og aðrar tillögur, þannig að við fáum heildarsýnina á það.