145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það þarf ábyggilega ekki að hvetja suma hér til að halda mönnum við efnið út af þessari samsköttun en ég ætla ekki að spyrja um það aftur, ég mun koma að því í ræðu minni, ég ætla ekki að gera það aftur, þó ég hafi ætlað að við höfum hugsað líkt um þessi andsvör, ég og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir.

Mig langar til að spyrja framsögumanninn, hv. þm. Willum Þór Þórsson. Þessar skattalækkanir hafa náttúrlega mikil þensluáhrif og hv. þingmaður fór yfir hina jákvæðu þjóðhagsspá sem hér blasir við og allt er á fullu ef svo má segja. (ÖS: Blússandi góðæri.) Blússandi góðæri, segir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hefur rétt fyrir sér í því eins og svo sem oft áður í öðrum hlutum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessu. Hefur hann ekki áhyggjur af þeirri vanstillingu sem er að verða, sýnist manni, á milli peningamálastefnunnar og ríkisfjármálastefnunnar, og sem er akkúrat það sem fór með þetta þjóðfélag nánast fjandans til fyrir rúmum áratug, á fyrsta tug þessarar aldar? Mig langar að spyrja þingmanninn: Hefur hann ekki áhyggjur af þessu? Hvað finnst honum um þetta?