145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir mjög góða spurningu.

Ég get nefnilega vísað í það sem var svona kjarninn — ég skipti framsögu minni í þrennt og fór yfir forsendur þess, efnahagslegar forsendur, sem hv. þingmaður vísaði til og þar lagði ég áherslu á að það væri verkefnið sem væri fram undan. Það er mitt uppáhald að ræða hér. Þess vegna fagna ég þessari spurningu, tel hana afar góða til að ræða hér, þ.e. samspil peningamálastefnu og fjármálastefnu. Af því að við erum að horfa á peningamálastefnu með vaxtatækið, stýrivexti, kannski svolítið lengi vel eitt að vopni getum við sagt, þeim til varnar í Seðlabankanum sem halda hér á peningamálastefnunni, til að hamla, eðlilega, gegn spáðri þenslu og verðbólgu og einkaneyslu sem við sannarlega erum að gefa í með skattalækkunum, þá hækka stýrivextir.

Það sem við þurfum að horfa til er að hvetja til sparnaðar og ekki síst sparnaðar í því formi að greiða niður skuldir. Okkur hefur tekist ágætlega það sem af er kjörtímabili að aðstoða heimilin við að ná niður skuldum, og þá vísa ég til skuldaleiðréttingar, og það sannarlega. Ef við skoðum það í öllum mælikvörðum hafa skuldir heimilanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkað, það er að finna í forsendum, en þetta er sannarlega verkefnið. Um það erum við hv. þingmaður sammála. Það ber að hafa áhyggjur af þessu. Ég tel og það hefur reyndar komið fram hjá mörgum hagfræðingum sem hafa heimsótt hv. efnahags- og viðskiptanefnd (Forseti hringir.) að munurinn nú og þess tímabils í aðdraganda hruns sem hv. þingmaður vísaði til er að við erum ekki alveg jafn mikið að taka þessa þenslu að láni, ekki í jafn miklum mæli. Það er vel.