145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stutta svarið er já. Ég tel að það verði. Ég er ekki með jöfnuna, ég get ekki farið með diffrunarformúluna hvernig það gerist. En ég tel það alveg víst að það dragi úr jöfnunaráhrifum skattkerfisins að afnema þetta efsta þrep. Sumir segja jafnvel að þau ættu að vera fleiri. Ég skal ekki um það segja. Þessi ríkisstjórn er líka búin að leggja af það sem við köllum auðlegðarskatt. Hann var lagður á þá sem áttu mest undir sér. Já, því miður, ég tel alveg ljóst að ekki sé nóg í þessu dæmi að vera með tvö skattþrep.

Ég segi líka í framhaldi af því, af því að við ræddum það fyrr í dag og ég kom inn á það í ræðu minni, að þessi æfing með samsköttun hjóna án þess að setja á hana nokkurt hámark er í mínum augum algerlega óskiljanleg. Ég veit að fólk segir: Þetta er fólk sem er heima að gæta gamalla foreldra eða er með veik börn, en það er svo lítill minni hluti. Við skulum þá taka á því sérstaklega ef það þarf að hjálpa því fólki. En að ætla að setja í þetta 3,5 milljarða, miðað við það sem lagt var upp með frá fjármálaráðuneytinu, finnst mér algerlega ótrúlegt og mikill höfðingsskapur við þetta fólk hjá meiri hluta nefndarinnar. Það stendur í nefndarálitinu held ég að hagsmunir þeirra séu meiri en einföldunin á einhverju. Ég efast ekki um það. Þetta eru miklir hagsmunir fyrir þetta fólk. En það þýðir líka að við hin þurfum að borga 3 milljörðum meira samtals.