145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að segja það fyrst að mér finnst það bitamunur en ekki fjár hvort það eru 900 þús. kr. eða 781 þús. kr.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanninum, ég var að vona að mér hefði tekist að koma því til skila, að viðbótin er 2 milljarðar. Þetta kostar 1,5 milljarða í dag. Viðbótin er 2 milljarðar, það er hárrétt. Hins vegar var tillagan í frumvarpinu um að afnema þetta alveg. Ráðuneytið segir í minnisblaði að þar sem ekki hafi verið hægt að flytja á milli miðþrepsins og lægsta þrepsins í dag telji þeir ekki rök fyrir því að taka það yfir í þetta nýja kerfi. Miðað við tillögur ráðuneytisins erum við að tala um 3,5 milljarða. Það hlýtur að vera þannig.

Auðvitað er betra að hafa tvö þrep en eitt, ég er sammála því. Það hefur meiri tekjujöfnunaráhrif. En ég tel að það hafi enn meiri tekjujöfnunaráhrif að hafa þrjú í staðinn fyrir tvö. Það er það sem ég held að sé betra. Auðvitað tala menn um kjarasamningana en það er líka það sem ég var að reyna að segja í framsögu minni, og hefur líklega ekki komist til skila, að ég skil ekki af hverju menn, ef þeir ætla að setja í þetta 11 milljarða, lækkuðu ekki tryggingagjaldið um 11 milljarða, settu það beint til fyrirtækjanna og þá hefðu fyrirtækin getað borgað fólki 11 milljörðum meira í laun. Það er önnur leið að því sama, að hjálpa fyrirtækjunum en láta þau ráða því, vera ekki með puttana í því sjálf og komin í þetta nákvæmlega, að létta meira á þeim sem mest hafa. Á endanum verður það því miður þannig.