145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég hafi nú ekki haldið því fram að nokkuð væri hættulaust, sérstaklega ekki þegar kemur að skattamálum.

Fyrst aðeins um tekjuskattinn áfram. Ég er að tala um tímasetningar. Ég var ekki þátttakandi í kjarasamningunum og ég veit ekkert á hvað ríkisstjórnin lagði áherslu þar, hvort hún talaði um tryggingagjaldið eða lagði mikla áherslu á það eða ekki. Það kom mér á óvart að heyra að það væri ekki krafa númer eitt að lækka tryggingagjaldið. Og það kemur mér á óvart að svona mikil áhersla hafi verið lögð á tekjuskattslækkun, sérstaklega í ljósi þess að fyrir nefndina komu hagfræðingar á vegum aðila á vinnumarkaði og lýstu þeim efasemdum sem ég er að lýsa núna, um að þetta væri illa tímasett.

Ég held því að við séum alltaf að tala um ákveðin gæði sem við höfum, að lækka tekjuskatt, sem við getum bara spilað út svo og svo oft. Þetta er ekki góður tímapunktur í svona miklum uppgangi sem er að hefjast, það held ég ekki. Síðan eru ýmsar leiðir til að koma til móts við millistéttina og það þarf líka að halda þeim leiðum opnum þegar verr árar út af utanaðkomandi þáttum. Þar verður að nefna að það er líka hægt að breyta viðmiðunarupphæðum innan þriggja þrepa kerfis til að ná betur þeim markmiðum að koma til móts við millistétt sem svo er skilgreind.

Þetta með virðisaukaskattinn — er ekki eitt þrep í Danmörku? Það er eins og mig minni það. Það er nú dálítið hátt. Ég held að það sé 24–25%. Ég er ekki með það á hraðbergi í kollinum en ég held að það sé svolítið hátt. Einhvers staðar er eitt þrep og það er 21%. Þetta er almennt frekar hátt þannig að ég held að við mundum standast samkeppni þó að við hefðum þetta á bilinu 18–22%. Ég er frekar þar, er ekki bjartsýnn á að við mundum ná því alveg niður í 15%, en einhvers staðar á bilinu 18–21% held ég að væri vel raunhæft.