145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir prýðisframsögu og ræðu. Hann var mikið til að skoða meginlínur efnahagsmála og svo það sem boðað er í frumvarpinu. Þar eru auðvitað skattamálin fyrirferðarmikil og mjög athyglisverðar vangaveltur varðandi skattkerfið. Í andsvari við hv. þm. Sigríði Á Andersen ræddu þau það sem ég ætlaði fyrst að spyrja út í um tekjuskattinn og að hafa stígandi skattkerfi. Breiddin, þ.e. tekjudreifingin ef við getum kallað svo, er ekki fjölmennur hópur í efstu tekjutíundinni hér. Við erum ekki að tala um mjög há laun. Ég velti fyrir mér þegar við erum farin að láta þrepin umhverfast eftir tvö ár í tvö þrep við 700 þús. kr. út frá meðallaunum sem við sjáum að eru rétt í kringum 500 þúsund hjá ASÍ, mögulega hafa þau breyst eitthvað, ég vil fara varlega í þær tölur. Getum við ekki séð jöfnunaráhrif í þrepaskiptingu eins og dreifingin er á Íslandi ganga upp gagnvart jöfnuði með tveimur þrepum og náð um leið einföldun gagnvart þeim sem við erum að innheimta skattinn af? Ég vil meina að þegar við erum að tala um einföldun á kerfinu eigum við að horfa til þeirra sem við erum að innheimta skattinn af, að það sé einfalt, fyrirsjáanlegt og gagnsætt gagnvart þeim. Við höfum auðvitað alltaf áhrif á ákvarðanir neytenda.