145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með allri virðingu er svo sjálfsagt mál í mínum huga að forgangsraða fyrir heimilin. Hver er ekki í pólitík til þess að gera það? Í þeirri hagfræði sem ég lærði eru bara heimili. Heimilin eru eigendur fyrirtækjanna. Aðgreiningin á heimili og atvinnulífi og síðan hinu opinbera — hið opinbera er að sinna þjónustu fyrir heimilin. Heilbrigðisþjónustan er fyrir heimilin. Við skilgreinum allt sem heimili. Það að forgangsraða fyrir heimilin er eiginlega merkingarlaust í pólitík. Það gera allir. Við erum alltaf að tala um að forgangsraða fyrir heimilin. Hér er ég að tala um tímasetningu á því. Nú hafa lífskjör batnað mjög mikið, sem er gott. Við erum að rísa upp úr kreppu. Það er mjög hröð kaupmáttaraukning eftir mjög erfiða tíma. Þetta er að mörgu leyti fyrirsjáanlegt. Það er nánast lögmál að það sem fer niður kemur upp.

Mér finnst Íslendingar oft stjórna illa í góðæri. Það er eins og það sé erfiðara að tala um aðhald og vera leiðinlegi maðurinn í partíinu þegar góðæri hefst. Núna er búið að ná frekar mikilli kaupmáttaraukningu. Það er verið að tala um að fara í skattalækkanir á næsta ári. Burt séð frá skattalækkunum eru spár um vöxt í einkaneyslu þokkalegar, spár um hagvöxt eru þokkalegar. Vandamálið er frekar á hina röndina. Í hvaða beisli ætlum við að grípa í þessu litla hagkerfi? Ég sé það ekki alveg. Alltaf viljum við bæta lífskjör og alltaf viljum við forgangsraða fyrir heimilin. Þegar kemur að því að eldsneytisverð hækkar eða einhver áföll verða, makríll fer, ferðaþjónustan mögulega hrynur, hvernig bætum við lífskjör þá? Tölum um það. Þá væri mjög gott að geta til dæmis lækkað álögur á fólk, reynt að auka kaupmátt þannig. Við verðum að halda einhverju eftir. Þetta er svolítið svipað og þegar var verið að tala um skuldaleiðréttinguna. Hæstv. fjármálaráðherra nefnir alltaf dæmi um góða skuldastöðu heimilanna (Forseti hringir.) en hún var þegar komin fram áður en gripið var til aðgerðanna þannig að málflutningur (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra er ein samfelld röksemd fyrir því að það er alger óþarfi að grípa til svona kostnaðarsamra aðgerða. (Forseti hringir.) Árangrinum hefur þegar verið náð.