145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er í eðli sínu mjög pólitískt mál sem við ræðum hér í kvöld. Ýmsar forsendur fjárlaga hljóma kannski ekki pólitískar í sjálfu sér en eru það samt því að þær snúast um það hvernig við innheimtum tekjur til að halda uppi samfélagi. Einhvern tímann var sagt að skattar væru það gjald sem við greiddum fyrir hið siðaða samfélag. Auðvitað er umræða um skattamál pólitísk því að hún snýst líka um það hvernig samfélag við viljum byggja, hvernig við viljum búa að fólkinu sem býr í því samfélagi og hvernig við viljum svo dreifa skattbyrðinni.

Ég vil fyrst segja að starfið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd var með ágætum í þessari vinnu. Það liggur líka fyrir að í þessum málum er pólitískur grundvallarágreiningur. Ég skrifað undir nefndarálit ásamt hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, sem mælti fyrir álitinu áðan, vegna þess að um þetta er grundvallarágreiningur. Málið snýst um það hvernig við dreifum skattbyrðinni og hvernig við nýtum fjármunina sem er hin umræðan sem við áttum í gær um fjárlög ríkisins.

Ég er mjög ósammála skattstefnu núverandi ríkisstjórnar sem var í raun og veru mörkuð strax og hún tók við. Ríkisstjórnin hefur tekið margar ákvarðanir til að snúa við þeim breytingum sem síðasta ríkisstjórn gerði á skattkerfinu og nægir þar að nefna ákvarðanir á borð við að fækka þrepum í skattkerfinu og ákvarðanir um að framlengja ekki auðlegðarskatt og orkuskatt auk annarra skattatengdra ákvarðana eins og að lækka veiðigjöld. Í stuttu máli má segja að allar þessar ákvarðanir hafi miðað að því að létta byrðum af þeim efnamestu í samfélaginu. Auðlegðarskatturinn er kannski besta dæmið en líka fækkun þrepa tekjuskattsins. Þrepaskipt tekjuskattskerfi, sem er stundum kallað framsækið skattkerfi, snýst um að hver og einn borgi hlutfallslega meira eftir því sem hann hefur meiri tekjur. Það miðast sem sagt við hugmyndina um að fólk eigi að njóta ákveðinnar grunnframfærslu og umfram hana sé eðlilegt að fólki borgi þá hærri skatta af þeim grunni en þeir sem minna hafa.

Á sama tíma hefur í nafni einföldunar verið ráðist í breytingar á virðisaukaskattskerfinu. Stærsta deiluefnið hér í fyrra var líklega hækkun á lægra virðisaukaskattsþrepi úr 7% í 11% og var þó rætt að síðar meir ætti að hækka virðisaukaskattsþrepið upp í 14%, en það hefur ekki orðið, væntanlega vegna mikillar andstöðu. Hækkunin á lægra virðisaukaskattsþrepinu var fyrst og fremst gagnrýnd vegna þess að hún sneri að matvöru sem vegur auðvitað þyngra hjá tekjulægri hópum en hinum tekjuhærri. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegra að hafa virðisaukaskattskerfið einfaldara, ef við getum notað það orð, eða flatara ef við gætum sammælst um að hafa hér þrepaskipt tekjuskattskerfi og horfðum fyrst og fremst á það kerfi til tekjujöfnunar fremur en virðisaukaskattskerfið. Það sem ég gagnrýndi í fyrra og vil ítreka þá gagnrýni var að fara í þá átt að fletja út virðisaukaskattskerfið og tekjuskattskerfið. Mér finnst gengið of nærri þeim sjónarmiðum að skattkerfið eigi ekki eingöngu að snúast um tekjuöflun fyrir ríkissjóð heldur að vera líka nýtt sem tæki til tekjujöfnunar.

Ef við byrjum á tekjujöfnunarrökum, sem skipta auðvitað máli, þá jókst ójöfnuður í samfélaginu á árunum fyrir efnahagshrun. Hann minnkaði í hruninu, bæði vegna þess að auður tapaðist og vegna þess að breytingar á skattkerfinu sem ráðist var í í tíð síðustu ríkisstjórnar miðuðu að því að taka hér upp þrepaskipt skattkerfi, reyna að hlífa þeim sem lægstar höfðu tekjurnar og skattleggja fremur þá sem höfðu hærri tekjur. Það hefur raunar komið fram í umfjöllun ýmissa aðila, t.d. OECD, að þessar aðgerðir þóttu skila þeim árangri að tekjulægri hópum var hlíft. Þær hafa hlotið mjög jákvæða umfjöllun af þeim sem fjalla um efnahagsmál á alþjóðavettvangi. Ég nefni sérstaklega OECD sem er talsvert vitnað til í nefndaráliti 1. minni hluta.

Ójöfnuður og jöfnuður er auðvitað ekki nýtt viðfangsefni. Í ágætu nefndaráliti 1. minni hluta er vitnað til franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem gaf út mikla metsölubók um auðmagnið á 21. öldinni. Hagrannsóknir hans eru um margt ólíkar þeim hagfræðirannsóknum sem við höfum séð á undanförnum árum, sem hafa verið það sem við getum kallað abstrakt, þ.e. hagfræðingar hafa fyrst og fremst verið að fást við hinn stærðfræðilega hluta hagfræðinnar, en Piketty vinnur innan þess ramma að hagfræði sé ekki hægt að taka úr samhengi við samfélagið og félagsvísindin. Bók hans rekur hvernig ýmsar breytingar, t.d. á skattkerfum eða hvernig við skipuleggjum í raun og veru ríkisfjármál, hafa skilað sér innan samfélaga þegar kemur að jöfnuði, þegar kemur að lífskjörum og þegar kemur að vexti samfélaga. Þar safnar hann gögnum frá nokkrum Vestur-Evrópuríkjum allt frá 19. öld og fer yfir þau í talsvert ítarlegu máli og sýnir hvernig annars vegar sögulegir viðburðir og hins vegar stjórnvaldsákvarðanir hafa breytt þessari þróun.

Það er nokkuð ljóst að þegar við skoðum þessa þróun í Evrópu má segja að eftir síðari heimsstyrjöld hefjist ákveðið tímabil jöfnuðar vegna þess að síðari heimsstyrjöldin var viðburður af þeirri stærðargráðu að hún hleypti upp öllu því kerfi sem var fyrir með þeim hörmungum sem henni fylgdu. Í kjölfarið kom mjög sterkur pólitískur vilji til að hefja uppbyggingu velferðarkerfis og hinu þrepaskipta skattkerfi var þá komið á. Síðan breyttist það eftir að kenningar nýfrjálshyggjunnar ruddu sér til rúms á Vesturlöndum, sérstaklega í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem höfðu áður verið með mjög háa skattheimtu og sveifluðust öfganna á milli úr mjög hárri skattheimtu yfir í mjög lágan, flatan skatt.

Þessi saga ætti að vera okkur umhugsunarefni, sem tökum ákvarðanir á Íslandi. Það vekur mér satt að segja ákveðna furðu að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi ekki viljað líta til þeirrar greiningar og rannsókna sem OECD hefur birt á undanförnum árum, eins og ég vitnaði til áðan. Í nefndaráliti 1. minni hluta er vitnað til skýrslu frá desember 2014 þar sem er farið yfir rannsóknir sem benda til þess að aukinn ójöfnuður dragi úr hagvexti. Það er í takt við rannsóknir sem hafa verið gerðar á bresku samfélagi af fræðimönnum í Cambridge-háskóla, sem hafa tekið saman og reynt að greina hagþróun í Bretlandi og komist að þeirri niðurstöðu að ráðstafanir sem gripið var til, sérstaklega á níunda áratug 20. aldar, hafi orðið til þess að vöxtur hafi orðið minni í Bretlandi en ella hefði orðið vegna þess að ójöfnuður jókst svo rækilega með þeim skattkerfisbreytingum sem þá var ráðist í.

Það má segja að kenningar nýfrjálshyggjunnar eigi ákveðnar rætur að rekja til Kuznets sem sagði að vöxturinn leiddi sjálfkrafa til aukins jöfnuðar. Piketty andmælir því sjónarmiði og telur að gögnin sýni að vöxturinn leiði alls ekki sjálfkrafa til aukins jöfnuðar. Hins vegar sé það svo að þegar rentan af auðmagninu verði meiri en almennur vöxtur þá hefjist þróun, eða spírall, sem auki ójöfnuð.

Við ættum að hafa áhyggjur því að í 30 ár hefur bilið milli ríkra og fátækra í löndum OECD aldrei verið meiri en nú. Ríkustu 10% þéna 9,5 sinnum meira en þau 20% sem lægst eru í tekjustiganum. Á níunda áratugnum þénuðu þeir ríkustu 7 sinnum meira. Þetta eru auðvitað sláandi tölur. Við þurfum ekkert að leita til OECD, við getum líka skoðað tölur frá Íslandi þar sem ríkasta 1% skattgreiðenda á 25% alls auðs á Íslandi og ríkustu 10% eiga alls 75%.

Ég er ekki þeirrar gerðar að ég geri þá kröfu að allir séu mér sammála, en við getum ekki annað en leyft okkur að ræða það, hvort sem við erum fylgjandi jöfnuði eða ekki, hvort við teljum að þær aðgerðir sem stjórnvöld ráðast í núna stuðli að jöfnuði eða ekki. Ég tel það morgunljóst að þær skattkerfisbreytingar sem hefur þegar verið ráðist í af ríkisstjórninni og eru boðaðar leiða til aukins ójöfnuðar. Það þýðir ekki að vitna hér í tölur frá árinu 2013 og segja að jöfnuður hafi aldrei verið meiri því að sjálfsögðu eiga áhrif þessara skattkerfisbreytinga eftir að koma fram.

Hér hefur verið bent á að þessar skattbreytingar séu liður í kjarasamningum. Það er vissulega rétt. Ég hef hins vegar fullan rétt á því að hafa skoðun á því hvernig ríkisstjórnin stóð að þeirri kjarasamningagerð. Á það er bent í nefndaráliti okkar að hefðum við haft eitthvað um þessa kjarasamninga að segja hefðum við talið einfaldari og skilvirkari leið að lækka tryggingagjald, enda er tryggingagjaldið í raun ígildi skatts á launatekjur þannig að lækkun þess hefði haft áhrif á allan launatekjuskalann öfugt við lækkun skatthlutfallsins sem hefur engin áhrif á þá sem hafa lægstu launin. Ég tel því að lækkun tryggingagjaldsins hefði ekki aðeins komið atvinnulífinu til góða heldur hefði það komið einstaklingunum til góða, fyrir utan kannski þau sjónarmið sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi hér áðan og ég tek auðvitað undir að við eigum að horfa á það sem eina heild þegar við tölum um atvinnulíf, heimili og samfélag því að allt hangir það saman og hefur hag hvert af öðru. Þetta er órofaheild.

Þetta var hugmyndafræðilega sýnin á málið.

Ég hef aldrei verið feimin við að benda á að það kostar peninga að halda uppi velferðarþjónustu, samfélagsþjónustu, á borð við þá sem ég vil sjá og þess vegna skipti máli að við nýtum þá tekjustofna sem við eigum. Alveg óháð því hvort maður aðhyllist almennt sterkt velferðarkerfi og skattheimtu til að standa undir því eða minni háttar ríkisumsvif og lægri skatta þá eru þau varnaðarorð sem við höfum heyrt frá hagfræðingum frá Seðlabankanum um ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar núna gríðarlegt umhugsunarefni þar sem verið er að tala um þenslumerki og aukinn hita í hagkerfinu. Þá er einnig umhugsunarefni að verið sé að ráðast í skattalækkanir í slíkri þenslu. Ég hjó eftir því á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar að mikilvægt væri að skattalækkanir væru fjármagnaðar. Ég óttast og það kemur fram í nefndaráliti minni hlutans að skattalækkunin auki líkur á að Seðlabankinn hækki í kjölfarið vexti til að draga úr eftirspurn. Það er auðvitað umhugsunarefni að skömmu eftir hrun skulu sömu sjúkdómseinkenni gera vart við sig í hagstjórninni, þ.e. að við séum ekki með stuðning í ríkisfjármálastefnunni við peningamálastefnu Seðlabankans.

Ég hef átt þá ósk að ræða efnahagsmálin við hæstv. fjármálaráðherra af því ég tel að við þurfum líka að ræða þetta. Ég tel að við þurfum að ræða það hvort við teljum að hagkerfið sé að hitna um of og hvernig við ætlum nákvæmlega að bregðast við því því að á sama tíma og það er að gerast er mikil krafa um fjárfestingar sem þarf að stýra þannig að þær komi ekki illa við þensluna. Þetta þarf auðvitað að ræðast miklu betur á þinginu.

Það er líka umhugsunarefni að ríkisstjórnin, sem hefur gengið mjög hart fram í skattalækkunum, hafi þannig veikt tekjustofna ríkisins áður en við getum sagt að við séum komin á beinu brautina í ríkisfjármálum. Ef við tökum stöðugleikaframlögin til hliðar sjáum við að afgangurinn af fjárlögunum hefði getað orðið miklu meiri ef tekjustofnum hefði verið viðhaldið og við værum komin hraðar á veg að mínu viti í því að lækka skuldir og ná hér betra jafnvægi í ríkisbúskapnum. Mig furðar hversu hratt hefur verið gengið fram í skattalækkunum. Það hefur verið helsta mál ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að nefna nokkur atriði hér af því ég á bara fáar mínútur eftir, sem eru annars eðlis. Ég vil sérstaklega nefna stöðu sveitarfélaganna. Það misgengi sem hefur orðið á stöðu ríkis og sveitarfélaga er áhyggjuefni líka. Þar þarf að ráðast í alvöruumræðu um endurskoðun tekjustofna. Ég segi það hins vegar líka það er ekki einfalt mál. Það er ekki þannig að ég leggi hér fram, eða hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, einhverjar patentlausnir á því verkefni. Ég held við verðum að horfast í augu við vandann í tengslum við þau verkefnum sem flutt hafa verið yfir til sveitarfélaganna á síðustu árum og aukinnar kröfu um þjónustu sveitarfélaganna. Það er áhyggjuefni hvernig sveitarfélögin standa.

Við nefnum tekjur af ferðaþjónustu, sem dæmi, sem er auðvitað hálfundarlegt að við séum ekki búin að finna neina lausn á eftir að hv. þingmenn úr öllum flokkum höfðu mjög stór orð um, eftir að náttúrupassafrumvarpið steytti á skeri, að við mundum finna einhverja góða leið til að efla gjaldtöku af ferðaþjónustunni. Rætt var um blandaða leið af hærra gistináttagjaldi, komugjöldum og einhverju slíku. Sú vinna er ekki farin af stað og í staðinn erum við komin með opinbera stofnun, Stjórnstöð ferðamála, sem kemur væntanlega með einhverjar tillögur um þetta. Ég held að það hefði verið einfaldara að gera þetta í þinginu og ráðast bara í það verkefni. Sveitarfélögin hafa til dæmis sett fram kröfur í þeim efnum. Maður gæti séð fyrir sér að ríki og sveitarfélög skiptu tekjunum með einhverjum hætti eins og við þekkjum víða erlendis frá þar sem við værum með gistináttagjald sem skiptist á milli ríkis og sveitarfélaga.

Mig langar líka að nefna grænu málin. Ég lýsti því í atkvæðaskýringu í gærkvöldi að græna hagkerfið — sú tillaga sem hér var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á síðasta kjörtímabili en hefur síðan verið hent fyrir borð og peningarnir teknir og settir í málefni húsafriðunar í skúffu í ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra. Og þó að ég sé mikil áhugakona um húsafriðun, ég tek það fram, finnst mér þetta samt einkennilegt bókhald í ríkisrekstrinum; ég hefði viljað sjá báðum þessum málaflokkum sinnt vel — snerist til dæmis um það hvernig við gætum staðið við þau markmið sem við samþykktum á Parísarfundinum um að draga úr loftslagsbreytingum. Þar skiptir máli að við skoðum hvernig við getum gert atvinnulíf hér grænna. Ég held að það eigi í kjölfar þessa fundar að skoða allt ríkiskerfið. Rétt eins og við innleiddum kynjaða hagstjórn hér ættum við að taka upp græna hagstjórn með miklu markvissari hætti og skoða áhrif ríkisbúskaparins alls. Þá er ég ekki bara að tala um tekjuhliðina, ég er auðvitað líka að tala um gjaldahliðina. Þar held ég að við getum skoðað skattlagningu sem varðar umhverfistengda þætti, en að sjálfsögðu líka hvernig við byggjum upp. Erum við að byggja vistvænar byggingar? Erum við að nýta vistvænan samgöngumáta og allt slíkt?

Að lokum langaði mig að nefna þá breytingartillögu sem ég reifaði hér áðan við hv. þm. Willum Þór Þórsson um samsköttunina sem ég hef mikið velt fyrir mér. Ég tek það fram að ég hefði líklega átt að setja fram þá ósk sem ég setti fram fyrr í nefndarstarfinu en það er nú svona, maður þarf stundum að gefa sér tíma til að skoða málin. Ég hef rætt það við framsögumann málsins, hv. þm. Willum Þór Þórsson, að efnahags- og skattanefnd fái að taka þetta mál milli 2. og 3. umr. og ræða við sérfræðinga í kynjaðri hagstjórn, sem eru starfandi í fjármálaráðuneytinu, hvaða áhrif gætu möguleg orðið af þessum breytingum og hvaða greiningu við gætum unnið á því máli.

Í fyrsta lagi vil ég segja að breytingartillaga meiri hlutans í efnahags- og skattanefnd, um að þakið verði tekið af því hvernig einstaklingar geti verið samskattaðir milli þrepa, hefur verulega neikvæð áhrif fyrir ríkissjóð sem mér finnst full ástæða til að ræða. Breytingin kostar 2 milljarða, þ.e. sú viðbótarbreyting sem meiri hlutinn leggur til, á tímum þar sem við erum að horfa upp á aðhald á ýmsum stöðum. Við ræddum það talsvert hér í gær. Við ræddum um fjármuni sem vantar til að bjarga íslenskri tungu sem allir vilja bjarga hér á tyllidögum, en ekki voru til 200 milljónir í það. Þessi breyting kostar 2 milljarða. Þegar ég las fyrst um heildaráhrifin af þessari breytingu trúði ég eiginlega ekki að þau yrðu svona mikil. Þetta var staðfest hér áðan. Ég segi nú bara: Dýr mundi Hafliði allur á tímum þar sem skortir hér fjármuni, t.d. í að hefja vinnu við að gera tungumálið okkar gjaldtækt í tölvutækum heimi. Við erum með alþjóðlega sérfræðinga sem flagga rauða fánanum og flögguðu honum reyndar í fyrra og hittiðfyrra og við sitjum bara róleg og ætlum að setja 30 milljónir í verkið, en okkur finnst þetta vera forgangsverkefni. Ég held að hitt athugunarefnið í þessu máli séu kynjasjónarmiðin. Miðað við bara almenna þróun launa í samfélaginu, það er auðvitað ekki algilt og það þekki ég sjálf, þá ímynda ég mér að þarna séu fyrst og fremst karlar sem eru með hærri laun en konur. Mér finnst ástæða til þess að við fáum það á hreint. Hv. framsögumaður tók vel í þá beiðni þannig að ég reikna með að við gefum okkur pínulítinn tíma í að greina þetta út frá sjónarmiðum kynjaðrar hagstjórnar. Ég held að ef við viljum breyta því hvernig við vinnum skattamál og ríkisfjármál og taka til hliðsjónar kynjasjónarmiðin, grænu sjónarmiðin, þá skipti máli að það sé gert alla leið, ekki bara í frumvörpum frá ríkisstjórn heldur líka í þinginu.