145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka þátt í umræðu um þennan svokallaða bandorm eða frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016.

Ég tek undir með hv. þingmanni sem hér var að stíga úr stól að þetta er ekki síður mikilvægt frumvarp en fjárlagafrumvarpið því þetta er jú það sem fjárlögin grundvallast á. Það eru tekjurnar og þarna birtist hápólitískt plagg. Í sjálfu sér birtist pólitíkin fyrst og fremst þar og það skilar sér svo inn í fjárlögin.

Ég ætla að fara svolítið um víðan völl og kíkja aðeins í frumvarpið sjálft og nefndarálit bæði meiri hluta og minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar í sambandi við það. Sú pólitík sem birtist í frumvarpinu að stóru leyti er auðvitað ekki sú sem samræmist minni lífsskoðun nema að takmörkuðu leyti og þá sérstaklega hvað varðar innheimtu skatta. Mér þykir bagalegt eins og ég sagði við fjárlagaumræðuna að hér stefnir í að skattkerfið verði fært aftur til gamallar tíðar í þá átt að fletja það út eða einfalda eins og ríkisstjórnarformennirnir hafa viljað kalla það. Ég er ekki sannfærð um að það sé í þá veru, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir rakti ágætlega áðan og vitnaði í bæði rannsóknir og virta hagfræðinga sem hafa farið í gegnum það með hvaða hætti skattkerfi getur haft áhrif til jöfnunar. Mér sýnist að þær aðgerðir sem farið hefur verið í, margar hverjar, alls ekki allar, ég ætla ekki að halda því fram en margar hverjar, hafi frekar beinst að þeim sem eru betur staddir en þeim sem þyrftu kannski meira á því að halda. Þar er skemmst að minnast hækkun matarskattsins. Ég er ekki sannfærð um að mótvægisaðgerðirnar hafi skilað sér og ég held að þingið þurfi að kalla eftir því að fá niðurstöðu í það eða eitthvert uppgjör á því hvernig staðan er núna í árslok á þessum mótvægisaðgerðum, þ.e. hverju þær hafa skilað til neytenda. Hér er líka verið að leggja til afnám tolla áfram og við þurfum að vera nokkuð viss um að það skili sér til hagsbóta fyrir neytendur. Það hafa komið fram í umræðunni áhyggjur hjá neytendum og hjá mörgum sem hafa tjáð sig um þessi mál að aðgerðirnar skili sér ekki eins og vera ber.

Ég ætla að tala líka um barnabætur og vaxtabætur. Það er verið að leggja til 3% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta en það er ekki verið að hækka skerðingarmörkin. Það verður þess valdandi að ríkissjóður fær til sín töluvert af tekjum eða öllu heldur leggur þær ekki út til barnafjölskyldna sem mér þykir afar miður. Ég er ekki sannfærð um þá heimild sem var sett hér inn forðum um að það mætti skuldajafna barnabótum og ánægjulegt að sjá að það á að fella hana alfarið niður. Mér finnst það mjög gott í þessu frumvarpi að sjá að það er gert. En ég hefði viljað í sambandi við viðmiðunarfjárhæðirnar að skerðingarmörk barnabóta yrðu að minnsta kosti færð upp í 270 þús. kr. sem teljast vera lágmarkslaun í dag í staðinn fyrir 200 þús. kr. Ég tel að það kæmi ungum barnafjölskyldum betur og auðvitað barnafjölskyldum yfirleitt sem hafa verið að fá greiddar barnabætur.

Það sama á í rauninni við um vaxtabætur. Hér er verið að lagfæra eða framlengja ákvæði. En það sem gerist í vaxtabótunum, eins og kannski með aðrar skattbreytingar sem hafa verið lagðar til og sumar þeirra eru í raun samþykktar nú þegar, er að dreifing þeirra, eins og segir í frumvarpinu, verður á fleiri fjölskyldur sem njóta ekki bóta í dag, væntanlega vegna þess að þær eru með viðunandi tekjur, en á sama tíma munu lækka bætur fjölskyldna sem hafa notið hámarksbóta, hér er sagt tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur. Þetta þykir mér röng forgangsröðun. Ég tel að við eigum ekki að styðja við þá sem eru betur staddir með þessum hætti frekar en með mörgum öðrum breytingum sem gerðar hafa verið. Þetta er eitt af því sem menn greinir auðvitað á um í pólitískri umræðu og lítið við því að segja virðist vera, það er ekki áhugi fyrir því að ræða það neitt nánar.

Varðandi tekjuskattinn þá er í nefndaráliti meiri hlutans farið í gegnum þær breytingar. Þar kemur fram að ef það gengur eftir að skattþrepunum verði fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum verði með breytingunni á tekjumörkunum mörk efra og neðra þreps í kringum 8,4 millj. kr. Það er alveg sama með þetta og kemur kannski í beinu framhaldi af því sem ég var að ræða áðan, að ég hefði frekar viljað sjá að fólk byrjaði að greiða skatt seinna þrátt fyrir að fjármálaráðherra hafi talað um að ríkið, gagnvart þeim sem greiddu skatt af lægstu tekjunum, gæti ekkert lækkað það vegna þess að þeir greiddu ekki skatt til ríkisins. En við getum auðvitað hækkað fjárhæðirnar. Við getum líka hækkað persónuafsláttinn. Það er hægt að fara margar leiðir. Persónuafslátturinn kemur auðvitað öllum til góða, það er klárt. Eins kemur hann þeim verst stöddu til góða ef þeir byrja að borga tekjuskatt síðar, þ.e. við hærri mörk. Það er leið til jöfnunar og það er leið til þess að þeir sem hafa lágar tekjur hafa hlutfallslega betri ráðstöfunartekjur. Í því sambandi má benda á að sú aðgerð sem hér er lögð til, lækkun skatthlutfalls í neðra þrepi um 0,18 prósentustig og í efra skattþrepi um 1,4 prósentustig, sú skattalækkun þýðir fyrir þá sem hafa lágmarkstekjur upp á 184 þús. kr. hækkun á ársgrundvelli um 5.604 kr. Ef við hefðum hins vegar snúið þessu við og lækkað neðsta eða fyrsta skattþrepið um 1,4 prósentustig hefði það þýtt fyrir þennan sama einstakling rúmlega 35 þús. kr. Slíkar fjárhæðir skipta máli þegar tekjurnar eru svona svakalega lágar.

Ég velti þessu líka fyrir mér í ljósi þess sem Seðlabankinn hefur sagt um tekjuskattslækkunina og aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að þær séu ekki skynsamlegar og ríkisfjármálastefnan styðji þá ekki við peningamálastefnu bankans og viðbúið að bankinn þurfi að hækka vexti til að draga úr eftirspurn. Þannig að ég spyr mig hvort það sé skynsamlegt að fara í þensluhvetjandi aðgerðir af þessum toga þegar fyrir liggur að þær geti haft þessar afleiðingar og búið er að setja það fram með rökstuddum hætti, fyrir utan að þetta er ekki að gerast í fyrsta sinn í heiminum, að núna sé ekki tími skattalækkana. Vissulega er þessi aðgerð hluti af kjarasamningsbreytunum en það má gagnrýna að farin hafi verið þessi leið en ekki einhver önnur.

Þá ætla ég að vinda mér í tryggingagjaldið sem ég hefði frekar viljað sjá lækka en að fara þessa tekjuskattsleið. Það er alveg ljóst að slík aðgerð hefði komið bæði stórum launagreiðendum eins og sveitarfélögunum til góða sem við vitum að búa við versnandi hag. Það hefur verið krafa atvinnulífsins að gjaldið sé lækkað hraðar en gert er. Atvinnuleysi hefur minnkað og maður veltir því fyrir sér að tryggingagjaldið hefur ekki lækkað að sama skapi. Það hefði líka verið meiri tekjujöfnun ef við hefðum lækkað tryggingagjaldið og hefði átt að þjóna markmiðum verkalýðshreyfingarinnar mun betur en tekjuskattslækkunin. Það hefur verið sagt af hálfu Samtaka atvinnulífsins held ég að lækkun þess eins og nú er gæti orðið til þess að atvinnulífið geti ekki staðið undir þeim kjarasamningum eða launahækkunum sem orðið hafa í kjarasamningum. Þá fer auðvitað atvinnuleysið væntanlega upp aftur.

Það má líka velta því fyrir sér hvort tryggingagjaldið eigi að vera mismunandi. Það er eitt af því sem hægt er að skoða. Við getum horft til sveitarfélaga sem eru risastórir launagreiðendur en þar er launabilið vissulega mjög stórt, eða horft til þess hvort lítil fyrirtæki með einn til þrjá starfsmenn eða fimm eða tíu, ég veit ekki hver viðmiðin ættu að vera, ættu að greiða lægra gjald. Þetta er bara hugmynd sem ég er að velta upp, hvort það væri heppilegra, því við erum jú að greiða sömu prósentutölu af hverjum einasta launþega. Maður heyrir að þar sem er lítil velta þá skiptir þetta miklu máli. Ég þekki það svo sem sjálf að þetta er íþyngjandi. Ég held því að við ættum frekar að lækka tryggingagjaldið en að lækka tekjuskattinn. Ég held að það væri líka mikilvægt fyrir sveitarfélögin sem við vitum að mörg hver standa ekki sérstaklega vel, sum auðvitað ágætlega, þetta gæti komið þeim vel.

Hér eru lagðar til nokkrar breytingar á virðisaukaskatti. Ég hef reyndar haft skoðanir á því að ferðaþjónustan eigi ekki að þurfa að vera í lægra skattþrepinu, ívilnandi skattþrepi. Mér hefði fundist að hún ætti að fara í hærra skattþrep. Í þeim geira er vissulega gríðarlega mikil uppbygging og það má hafa áhyggjur af því hvort ferðaþjónustan verði tilbúin í einhver áföll þegar hún er að skuldsetja sig svakalega eins og hér er. Hér eru byggð hótel, þau spretta upp eins og gorkúlur á vinsælum stöðum í höfuðborginni og svo er verið að byggja á vinsælum áfangastöðum úti á landsbyggðinni sem eru nú kannski ekki ýkja margir. Auðvitað er spáð miklum ferðamannastraumi til okkar sem betur fer og það er að mörgu leyti jákvætt þótt við séum ekki tilbúin til þess að taka á móti honum þar sem við erum ekki búin að fara í þá innviðauppbyggingu sem við þurfum. En ég hef áhyggjur af því að ferðaþjónustan verði orðin svo skuldsett til margra ára að hún geti ekki tekið á móti ef eitthvað gerist sem veldur því að atvinnuvegurinn dregst verulega saman. Ég hef haft þá skoðun að hún hefði átt frekar að fara í hærra virðisaukaskattsþrepið og það harmónerar í raun við tilfærsluna á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi af því að hér er lagt til að áfengi fari í 11% þrepið, þ.e. lækki þannig að veitingahúsin verði með allt í sama þrepi. Það verður áhugavert að sjá hvort það skilar sér eitthvað frekar. Hér er því velt upp varðandi skattsvik í ferðaþjónustu að þessi aðgerð verði til þess vonandi að skattur skili sér frekar inn ef þetta er gert svona. Ég skal ekki segja hvort að það skipti einhverju máli ef fólk ætlar að svíkja undan skatti í hvaða þrepi það er eða hvort fólk hafi verið að stimpla inn áfengi eða matvöru eða eitthvað slíkt í lægra virðisaukaskattsþrepi fram til þessa. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórnin þarf þá að fylgja eftir og sjá hvað það er raunverulega sem skilar auknum skatttekjum ef virðisaukaskattstekjur aukast, hvort það sé vegna þessarar aðgerðar meðal annars eða einhvers annars.

Ég ræddi í vikunni um virðisaukaskatt á fólksflutninga, þ.e. á almenningssamgöngur og skólaakstur og ég er ánægð að sjá í nefndaráliti meiri hlutans að búið sé að taka af allan vafa um það. Sveitarfélögin hafa jú kallað töluvert eftir því að það sé skýrt að þau þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt af akstursþjónustu vegna þessa. Hv. framsögumaður nefndarálitsins benti mér á að þetta hefði verið sett í nefndarálitið til að skýra þetta ef efasemdir væru uppi um með hvaða hætti skattlagningin væri. Þannig að ég er ánægð að sjá að það liggur fyrir.

Þegar við erum að tala um skatttekjur milli ríkis og sveitarfélaga og hvaða leiðir er fært að fara þá hafa verið nefndir ýmsir möguleikar. Gistináttagjaldið hefur verið nefnt og ég hefði viljað sjá t.d. fjármagnstekjuskatt, að sveitarfélögin fengju eitthvað af honum. Það var náttúrlega sérstaklega mikið um það fyrir hrun að mjög margir voru farnir að greiða sér tekjur eingöngu í formi arðs eða einhvers slíks og þeir greiða þá bara fjármagnstekjur sem sveitarfélögin fá ekkert af. Þær renna beint til ríkisins. Mér finnst að sá tekjustofn eigi að skiptast með einhverjum hætti milli ríkis og sveitarfélaga.

Svo hefði ég viljað sjá líka í þessu frumvarpi að sveitarfélög þyrftu kannski ekki að greiða virðisaukaskatt því að þau fá ekki innskattinn á móti og þetta er eitt af því sem þau hafa lagt til. Ég geri mér ekki grein fyrir því hversu mikið tekjutap það yrði fyrir ríkissjóð. En í ljósi versnandi hags sveitarfélaganna og að hér er líka til umfjöllunar frumvarp um opinber fjármál sem byggir á því að ríki og sveitarfélög standi sameiginlega að afkomu þá held ég að þetta sé eitt af því sem þurfi að skoða ef allir eiga að græða eins og maður segir, ef allir eiga að geta staðið við sínar skuldbindingar. Ég heyrði einmitt á fjárlaganefndarfundi áðan þar sem var farið yfir samninginn út af málefnum fatlaðs fólks, tekjubreytinguna hvað það varðaði, að þetta er eitt af því sem út af stendur sem snýr að m.a. að virðisaukaskattsmálum og fleiru.