145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir hennar ræðu. Hún fór mjög vítt yfir sviðið og fór marga þætti í tekjujöfnunarkerfi okkar; tekjuskattinn og jöfnunaráhrifin og svo virðisaukaskattskerfið, sem er sá skattstofn sem skilar mestu. Síðan kemur tekjuskattur á einstaklinga og svo lögaðila og svo tryggingagjaldið. Hv. þingmaður vék að þeim þáttum í tekjuöflunarkerfi okkar.

Ég held að við höldum okkur við seinni tíma skýrslur, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og skýrslur sem snúa að þessari stígandi eða það sem er kallað prógressíft skattkerfi og jöfnunaráhrif, þrepaskiptingu. Við erum sannarlega ekki fallin frá því. Hér er jöfnuður óvíða meiri en á Íslandi.

Fyrsta spurning mín snýr að virðisaukaskattskerfinu. Hvert er álit hv. þingmanns á jöfnunaráhrifum virðisaukaskattskerfisins? Sér hv. þingmaður fyrir sér eitt þrep þar?

Hv. þingmaður kom inn á þá tillögu meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem snýr að því að lækka virðisaukaskatt á áfengi og hækka áfengisgjaldið á móti þannig að tekjuáhrifin jafnist út, í þeim tilgangi að virkja skattstofninn betur. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Ég náði því ekki hvort það kom fram í ræðu hv. þingmanns.