145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[23:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er alveg rétt, ég get svo sem alveg fallist á það í ljósi þess að ferðaþjónustubransinn er á mikilli uppleið mjög hratt. Það gerist allt mjög hratt.

Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af því að hún sé að skuldsetja sig svo ofboðslega. Þarna er eins konar væntingaskuldsetning sem byggð er á ákveðnum spám. Ég hef áhyggjur af því að það geti orðið til þess að hér geti allt of margir farið á hliðina ef eitthvað alvarlegt gerist, eins og ef forsendurnar breytast.

Það er vissulega alveg rétt að meðal annars þess vegna er grunnurinn svolítið erfiður, ég þekki það nú svo sem sjálf. Ég átta mig á þeim fasta kostnaði sem þarna er þar sem ég hef starfað í þessum geira. Greinin er búin að vera í lægra þrepinu allt of lengi, finnst mér. Ég er ánægð með að sjá að hún er dregin meira undir en verið hefur. Það er skref í áttina og kvarta eflaust margir yfir því. En ég er ánægð með að það sé að gerast og það er kannski fyrsta skrefið.

Ég er mjög ánægð með undanþágu varðandi virðisaukaskattinn og ég geri mér grein fyrir klemmunni þegar við erum að reyna að einfalda eitthvað. En svo er það skilgreiningin á einföldun. Sjálfstæðismenn útskýra þetta sem einföldun á skattkerfinu en ég lít ekki á þetta sem einföldun. Ég tala nú ekki um þegar menn voru einungis að fækka tekjuskattsþrepum úr þremur í þrjú, eins og maðurinn sagði.

Ég held að þetta sé eitt af því sem (Forseti hringir.) við þurfum að huga að. En ég tek undir með hv. þingmanni að mörgu leyti í þessu efni.