145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:46]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í öllu þessu máli höfum við í stjórnarandstöðunni reynt að koma til móts við ráðherrann og hans sjónarmið í þessu efni. Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur til að reyna að ná málamiðlun og þeim hefur öllum verið hafnað, hverri einni og einustu. Við lögðum til frestun fram yfir jafningjamat sem fer fram hjá stofnuninni á næsta ári af hálfu DAC. Við höfum boðið líka framlengingu á gildistöku og svo núna er gengið mjög langt, allt of langt að mínu mati, í átt til hæstv. ráðherra með því að tala um að leggja til ráðuneytisstofnun. En því er hafnað líka. Þessi ráðherra fer með stjórnarmeirihlutann beinustu leið inn í ófrið um þróunarsamvinnu. Ég verð að segja alveg eins og er að í öllu þessu máli hefur þetta verið keyrt áfram af mjög annarlegri þvermóðsku. Það er ekki hægt að segja annað um það.