145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Í sumar tóku gildi ný lög um Stjórnarráð Íslands sem hæstv. ríkisstjórn hafði forgöngu um. Þar er dregið upp nánast skapalón að stofnun eins og þeirri sem við leggjum hér til, þ.e. þar er búið til nýtt form ráðuneytisstofnunar. Í þessu tilviki mundi það fela í sér að hæstv. ráðherra hefði fjárstjórnarvald yfir stofnuninni. Hið nýja form mundi útiloka allt það sem hann taldi óhöndugt eins og tvíverknað, það mundi tryggja að stofnunin og utanríkisráðuneytið gengju í takt. Allt það sem hæstv. ráðherra vildi ná fram felst í þessari tillögu. Það eina sem stjórnarandstaðan heldur eftir er að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar yrðu undanþegnir flutningsskyldu. Með öðrum orðum, ráðherranum er boðið upp á þverpólitíska sátt og hver einasti utanríkisráðherra frá Ólafi Jóhannessyni (Forseti hringir.) fram að þeim sem nú situr hefur lagt sig í líma um að ná þverpólitískri sátt. Þessi hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í: … ESB …) kýs ófrið um þróunarsamvinnu þegar boðið er upp á frið. [Kliður í þingsal.]