145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:15]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Leitin að tímasetningunni sem er hentug að mati vinstri manna til að lækka skatta stendur enn yfir. Hún hefur staðið yfir ansi lengi. Hún er ekki enn komin í ljós þrátt fyrir að vinstri menn hafi verið í skipulegum stjórnmálasamtökum í ansi langan tíma.

Hér er auðvitað mikið gleðiefni á ferðinni. Það er áhugavert að enginn þeirra hv. stjórnarandstæðinga sem í orði kveðnu segjast alla jafna hugsa um þá sem minna mega sín fagnar tollalækkununum sem hér eru á ferðinni. Enginn fangar því að vörugjöld hafi verið fullkomlega afnumin í tíð þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Þetta eru frábær tíðindi, sérstaklega fyrir lágtekjufólk og (Gripið fram í.) ég hvet hv. stjórnarandstöðuþingmenn [Háreysti í þingsal.] til að róa sig til að byrja með og þegar þeir eru búnir að ná sér niður að fagna þessu því að þetta eru (Gripið fram í.) góð tíðindi fyrir Ísland og sérstaklega fyrir láglaunafólk (Forseti hringir.) eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson veit manna best. [Kliður í þingsal.]