145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Nú fljúga spjótin á milli vinstri og hægri og við í Bjartri framtíð erum ekki þátttakendur í því stríði. Við reynum einfaldlega að horfa á þetta út frá okkar hyggjuviti og hvað blasir við. Hér er verið að minnka möguleikana á því að nota tekjuskattskerfið til tekjujöfnunar. Við erum á móti því, við getum ekki stutt það vegna þess að það er betra að nota tekjuskattskerfið en önnur kerfi til tekjujöfnunar.

Þó að við séum öll með því að reyna að draga úr álögum á fólk og við hefðum viljað sjá tryggingagjald lækka blasir samt við þegar maður skoðar hagstjórnarsögu Íslendinga að það virðist vera erfiðara að stjórna í góðæri en kreppu. Núna hefur verið mikil kaupmáttaraukning, miklar (Forseti hringir.) framkvæmdir í atvinnulífinu eru í aðsigi og eldsneytisverð er lágt. Það eru miklar kjarabætur í uppsiglingu og þetta er ekki tímapunkturinn fyrir tekjuskattslækkun. Við eigum að bíða með hana og þess vegna getum við ekki greitt þessu atkvæði.