145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[12:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er verið að framlengja heimild til ríkissjóðs um að láta hluta af tryggingagjaldi ekki renna í starfsendurhæfingarsjóði. Ég geri mér grein fyrir að það kemur fjármagn inn í starfsendurhæfingarsjóði eftir öðrum leiðum en þó mun minna en ætti að vera samkvæmt upphaflegu samkomulagi. Ég vildi bara gera grein fyrir atkvæði mínu til að vekja athygli á því hvernig verið er að misnota tryggingagjaldið. Það er sundurliðað niður í ákveðna stofna og á að fjármagna Fæðingarorlofssjóð og atvinnuleysisbætur, það á að fjármagna starfsendurhæfingu, jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða o.s.frv. Þróunin hefur hins vegar verið sú að tryggingagjaldið er bara að breytast í launaskatt. Ríkið lætur ekki þessa stofna renna til verkefnanna heldur beint í ríkissjóð. Atvinnuleysi minnkar, samt lækkar tryggingagjaldið ekki. Hluti fer ekki í starfsendurhæfingarsjóði og samt lækkar tryggingagjaldið ekki. (Forseti hringir.) Það er hætt við lengingu á fæðingarorlofi og samt lækkar tryggingagjaldið ekki þannig að hér er bara verið að misnota þennan tekjustofn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)