145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að þetta andsvar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur var alveg með ólíkindum og þar talaði hún einmitt um bótasvik og þau væru svo stórkostleg hjá öldruðum og öryrkjum að það væri hægt að byggja heilan Landspítala á ári af því að þeir væru að svíkja svo mikið undan.

Ég kannast ekki við að hafa heyrt hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur tala svona um skattsvik og tína til hvað væri hægt að byggja marga Landspítala fyrir skattsvik. En henni finnst það bara greinilega réttlætanlegt, eða hún sagði það ekki réttlætanlegt, henni fannst það bara, það var hennar skoðun að þessi hópur ætti að vera á lægri kjörum og kannski væri hægt að bæta kjör hans ef hann mundi ekki svíkja svona mikið undan og væri ekki að svindla svona mikið.

Satt að segja á maður ekki orð yfir þessi viðhorf, það er bara þannig, sérstaklega þegar við erum að tala um hópinn sem hefur engar tekjur annars staðar frá. Það er umræðan hér, hún snýst um þá sem hafa engar tekjur annars staðar frá. Hvernig í ósköpunum eiga þeir að fara að því að svindla og svíkja? Hvernig eiga þeir að fara að því? Það væri ágætt að heyra það.

Eins og ég sagði áðan þá er þetta fjölbreyttur hópur, lífeyrisþegar eru á misjöfnum kjörum en það sem við höfum verið að ræða hér er hópurinn sem hefur engar tekjur annars staðar frá. Það er mikilvægt þegar við metum þessa umræðu um hvaða hóp við erum að tala.