145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er alveg hárrétt og þetta er góð samlíking og gott mat að horfa á þetta tvennt. Það sem hægri stjórnin setur í forgang er að lækka skatta. Skattalækkanirnar á árinu 2016 og 2017 kosta einmitt um 11 milljarða eins og hv. þingmaður talaði um. Það að greiða öldruðum og öryrkjum þannig að kjör þeirra séu sömu og þeirra sem eru með lægstu launin kostar líka á tveimur árum, árunum 2015 og 2016, um 11 milljarða.

Hægri stjórnin leggur áherslu á að þeir sem eru með 700 þús. kr. fái á árinu 2017 12 þús. kr. í vasann, 6 þús. kr. á árinu 2015. Þeir sem eru með lægra fá minna. Kári Stefánsson er með meira en 700 þús. kall, hann er með meira en 850 þús. kr. Það er verið að rétta honum 3 þús. kall á mánuði eins og hann muni um það. Hann hefur beðið um að fá að borga hærri skatta.

En þetta er stefnan. Að taka út jöfnunarhlutverk skattkerfisins, greiða þeim meira sem munar ekki um það. Ef það er hægt að endurreisa millistéttina fyrir 12 þús. kall á mánuði þá segi ég bara að hún hafi ekki verið í miklum vanda fyrir. Þannig að ekki er það til þess. Við eigum ekki að mínu áliti að lækka tekjuskatta á fólk sem getur vel borgað þá á meðan velferðarkerfið er í vanda, við erum með Landspítala í vanda, við teljum okkur ekki hafa efni á að reka ríkisútvarp og við ætlum að halda öldruðum og öryrkjum fátækustum allra á landinu. Ef við höfum ekki efni á þessu þá höfum við ekki efni á því að lækka skatta á fólk sem er í góðri stöðu fyrir.