145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mæli hv. þingmaður manna heilastur. Ég held að það sé hárrétt hjá hv. þm. Róberti Marshall að framkoman gagnvart öldruðum og öryrkjum er sennilega síðasti nagli sem ríkisstjórnin er að reka í sína eigin líkkistu. Hv. þingmaður rifjaði það upp, sem er alveg hárrétt hjá honum, að flokkur hans hefur ítrekað bent á misræmið og ranglætið sem felst í því að með hinni svokölluðu höfuðstólsleiðréttingu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er þeim allra ríkustu í þessu samfélagi, þ.e. fólki sem á sínum tíma greiddi auðlegðarskatt, þeir sem eiga mestar eignir og hafa mestar tekjur, færðir 2–3 milljarðar á silfurfati. Fólk sem hafði meira en nóg og þurfti ekki meira, því voru samt réttir 2.000–3.000 milljarðar íslenskra króna.

Svipað sjáum við vera að gerast hér í dag. Við höfum heyrt magnaða ræðu hv. formanns fjárlaganefndar þar sem hún jós úr sér yfir aldraða og öryrkja með slíkum eindæmum að ég ef aldrei heyrt slíka ræðu á Alþingi Íslendinga. Á sama degi er sömuleiðis alveg ljóst að stjórnarliðið ætlar ekki að samþykkja tillögu stjórnarandstöðunnar, sem allir flokkar hennar standa sameinaðir að, um 6,5 milljarða til að greiða öldruðum og öryrkjum bætur afturvirkt til 1. maí. Á sama degi gerist líka að það er ekki ein heldur tvær breytingar á tekjuskatti sem báðar hníga að því að þeir tekjuhæstu hafa mest út úr því og þá einkum sú breyting sem er vegna breyttrar þrepaskiptingar skattsins þar sem er alveg ljóst að þeir sem hafa hæstar tekjur fá langmest út úr því. Þeir sem hafa 240 þús. kr. og minna fá ekkert út úr því. Svo kemur þetta lið og heldur því fram að það vanti peninga til að koma til liðs við aldraða (Forseti hringir.) og öryrkja. Í staðinn kýs það að láta þetta fé í að lækka skatta (Forseti hringir.) hjá þeim sem ekki þurfa á skattalækkunum að halda, en aldraðir og öryrkjar eru eini hópurinn sem er skilinn eftir.