145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að ræða breytingartillögu minni hlutans sem við leggjum fram aftur í þeirri von að hún verði samþykkt í þetta skiptið. Ástæðan fyrir því að við gerum það er að á þessum tímum þegar ríkisstjórnin stærir sig af því að aldrei hafi gengið betur og nægir peningar séu í kassanum þá er ekki hægt að hækka bætur hjá þeim sem verst standa til jafns við þá kjarasamninga sem hafa verið gerðir um launabætur hjá öðrum hópum í samfélaginu. Jú, þetta eru vissulega háar upphæðir, en þó eru í stóra samhenginu 5–7 milljarðar eins og um er að ræða bæði með afturvirkum greiðslum á þessu ári og svo í breytingartillögu við fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár, kannski ekki há upphæð ef við skoðum þetta í samhengi. Þetta er svipuð upphæð og er verið að gefa eftir með því að lækka skatt á millistéttina. Þetta er brotabrot af þeirri upphæð sem fór t.d. í skuldaniðurfellinguna ef út í það er farið. Þannig að við viljum meina að ef menn ætla að forgangsraða rétt þá leiðrétta þeir þessi kjör.

Mig langar aðeins að ræða það sem fór fram hérna áðan eftir ræðu framsögumanns minni hluta fjárlaganefndar, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, þar sem umræðan fór einhvern veginn út í bótasvik og þar fram eftir götunum. Ég lít á þetta sem tvö aðskilin mál, annars vegar er það hvaða upphæð við ákveðum að veita í bætur til ellilífeyrisþega og öryrkja og við hljótum að vera sammála um að það verði að vera upphæð sem fólk getur lifað af. Síðan er það bara annað mál að einhverjir séu að svíkja út úr kerfinu. Það þarf auðvitað að taka á því en við getum ekki haft bæturnar þetta lágar vegna þess að einhverjir séu hugsanlega að svindla. Mér líkar það afar illa þegar ég heyri hvort heldur er af skattsvikum eða bótasvikum eða hvað það er og auðvitað eigum við ekki að líða slíkt. En við erum ekkert að ræða það hérna. Ég hvet ríkisstjórnina til að ganga í það mál. Við erum meðal annars með breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið sem snýr að því að auka skatteftirlit og fá auknar tekjur í kassann. Ég held að við séum öll sammála um það. Eflaust eru einhverjir á bótum sem eru að svíkja út bætur og þá ganga menn bara í það mál og það á ekkert að taka á því með neinum vettlingatökum. En við skulum gefa okkur að fólkið sem er á bótum sé ekki að svíkja þær út. Það þarf bara að fá bætur sem duga þeim til framfærslu. Ég vil ekki spyrða þetta saman. Mér finnst það ekki réttlátt. Ellilífeyrisþegar geta ekki svikið út neinn ellilífeyri. Þeir eru orðnir 67 ára, það liggur nokkuð ljóst fyrir hvenær þeir byrja að taka sinn ellilífeyri. Þannig að mér finnst umræðan vera á villigötum þegar við förum út í þá sálma.

Það er vissulega ekki neinn stórkostlegur afgangur af ríkissjóði. Það sem við sjáum núna er arður af bönkum sem skilar sér til ríkissjóðs og er í raun tilfallandi tekjur, getum við sagt. En það er borð fyrir báru. Við munum væntanlega greiða atkvæði um þetta á morgun og við munum aftur reyna að fá alþingismenn til þess að samþykkja þessa tillögu okkar og í það minnsta að samþykkja breytingu á fjárlagafrumvarpinu sem snýr að hækkun á árinu 2016. Mér finnst forgangsröðunin vera mjög einkennileg þegar við lækkum tekjuskatt á jafnvel efri millistétt og mér verður líka tíðrætt um skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar sem nemur tugum milljarða. Það er hægt að senda heimilum sem eiga fasteign, og skulda jú vissulega eitthvað í henni, einhverjar milljónir frá skattgreiðendum í formi skuldaniðurfellingar, og það er röng forgangsröðun á meðan við getum ekki staðið vörð um þá sem verst hafa það í þjóðfélaginu. Markmiðið hlýtur að vera að útrýma fátækt. Við þurfum að fara öll í það sameinuð.