145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir ræðuna. Mig langar reyndar líka að nota þetta tækifæri til þess að þakka minni hluta hv. fjárlaganefndar fyrir það að flytja aftur breytingartillögu við 3. umr. þess efnis að ellilífeyrisþegar og öryrkjar fái einnig afturvirkar bætur til 1. maí líkt og allir aðrir hópar hafa fengið á almennum vinnumarkaði, þar á meðal við sem hér stöndum.

Mér fannst hv. þingmaður koma inn á mjög mikilvægan hlut þegar hún sagði að hún teldi að taka þyrfti sérstaklega á bótasvikum í kerfinu og það ætti ekki að spyrða saman umræðuna um bótasvik annars vegar og hækkun bóta hins vegar. Ég er alveg hjartanlega sammála þingmanninum um þetta og verð að segja að mér var eiginlega brugðið við andsvar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og formanns hv. fjárlaganefndar í umræðunni fyrr í dag þar sem hv. þingmaður eiginlega setti saman í umræðunni annars vegar bótasvik þar sem hún var að vísa til lífeyrisþega og hins vegar almenn skattsvik í samfélaginu og náði þannig að teygja töluna upp í tugi milljarða og nefndi töluna 100 milljarða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Finnst henni þessi framsetning sanngjörn hjá hv. formanni fjárlaganefndar?