145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég er alveg hjartanlega sammála henni í því að það óskar sér þess enginn að fara á örorku. Ég held að við getum svo sannarlega gert miklu betra í því sem samfélag að búa til úrræði og hreinlega búa til samfélag þar sem allir geta tekið þátt þó svo að þeir hafi einhvers konar skerðingu, hvort sem skerðingin flokkast sem geðheilbrigðismál eða stoðkerfisvandamál eða einhvers konar meðfædd skerðing. Við sem samfélag getum tekið utan um það og gert öllum einstaklingum kleift að lifa góðu og mannsæmandi lífi, en það kostar auðvitað. Úrræði sem gera öllum kleift að taka þátt í samfélaginu kosta, þau kosta reyndar að hluta til bara viðhorfsbreytingu og hún kostar svo sem ekki peninga. Það er eitthvað sem við þurfum öll að taka þátt í. En hún kostar líka peninga úr ríkissjóði og þá þurfum við auðvitað að afla þeirra. Ég held að það hafi einmitt komið ágætlega fram í þessari umræðu að peningarnir eru til. Meiri hluti hv. þingmanna var reyndar að afsala ríkinu talsverðu af þeim peningum í atkvæðagreiðslu í dag með því að lækka skatta á þá efnamestu. Þetta þurfum við allt að taka í samhengi.

Við vorum að ræða hérna um skattsvik og ég tel mig hafa séð ansi mikið misræmi í málflutningi annars vegar hv. formanns fjárlaganefndar og svo hv. varaformanns fjárlaganefndar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem hefur talað um það í umræðunni að allar breytingartillögur (Forseti hringir.) minni hlutans við fjárlög hafi verið vanfjármagnaðar vegna þess að það eigi að sækja þetta allt í bætt skatteftirlit. (Forseti hringir.) Getur þingmaðurinn varpað betra ljósi á þetta?