145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó einmitt eftir þessu að það var ekki samræmi þarna og velti fyrir mér hvort við hefðum ekki bara átt að gera ráð fyrir 10 milljörðum í auknar tekjur vegna bætts skatteftirlits, (Gripið fram í.) já eða 100 sem er reyndar ekki raunhæft. Mig langar aðeins að nefna það, af því að hv. þingmaður kom inn á hlutastörf og annað og það væri mikilvægt að opna vinnumarkaðinn, vera kannski opinn fyrir því að gefa öllum tækifæri, þá held ég að það strandi hreinlega að einhverju leyti á innleiðingu tilskipunar um mismunun á vinnumarkaði, minnir mig að hún heiti, sem er búin að vera á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að ég held frá upphafi og ég hef nokkrum sinnum spurt hæstv. félagsmálaráðherra á hverju strandi og alltaf er þetta á leiðinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt að innleiða þessa tilskipun hvað þetta varðar.

Síðan held ég að við þurfum líka að hafa kjark til þess að skoða bótakerfið. Það er mjög flókið. Öryrkjabandalagið hefur gagnrýnt það og við erum einhvern veginn alltaf að púsla ofan á kerfið. Á einhverjum tímapunkti gæti verið að við vildum gera einhverja heildarendurskoðun á því og breyta. Ég held að það sé of flókið. (Gripið fram í: Hvað með borgaralaun?) Borgaralaun er hugmynd sem mér finnst vera svolítið spennandi, ég skal viðurkenna það. En ég held að við gætum aðeins stokkað upp, gert kerfið að einhverju leyti einfaldara og skilvirkara, líka bætt þjónustuna við þá sem sækja bætur, t.d. hvaða rétt fólk á, að það sé ekki alltaf eins og það sé einhvern veginn að reyna að hafa eitthvað af ríkinu. Það er margt í þessu. Það er margt sem við getum rætt og munum ræða áfram á næsta ári í þessum málaflokki.