145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess í ræðu minni að tveir hv. þingmenn stjórnarliðsins verið nægilega ærlegir til að segja sannleikann í þessu máli varðandi fyrri ríkisstjórn. Annar þeirra var hv. þm. Karl Garðarsson, sem kinkaði kolli í viðurkenningarskyni því að það var það sem hann sagði, og hinn var hv. þm. Brynjar Níelsson. Eftir að þeir höfðu haldið sínar dómadagsræður um að síðasta ríkisstjórn hefði gert aldraða og öryrkja að einhverjum sérstökum fórnarlömbum þá sögðu þeir þó það (Gripið fram í.) sem mér heyrist hv. þingmaður vera að draga til baka núna, (Gripið fram í.) þ.e. að við hreyfðum ekki við kjörum þeirra sem verst voru settir. Það voru þeir sem hvorki höfðu atvinnutekjur né lífeyristekjur. Það gerðum við. Það kalla ég að standa vörð um þá sem verst eru settir. Það er minn skilningur á því.

Hitt er algjörlega hárrétt að meðal þeirra aðgerða, þó að það hafi ekki verið fyrsta aðgerðin, sem við réðumst í strax eftir að minnihlutastjórnin lauk ferli sínum og ný meirihlutastjórn tók við var að breyta skerðingarmörkunum gagnvart atvinnutekjum og lífeyristekjum þeirra sem voru í bótakerfinu. Hvernig var það gert? Þau voru tekin úr 38% og færð upp í 45%. Það var það sem best hafði verið nokkru sinni áður. Það var breyting sem Jóhanna Sigurðardóttir beitti sér fyrir í ríkisstjórninni 2007 og höfðu aldrei verið minni skerðingar í sögu kerfisins, svo að það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Þegar hv. þingmaður spyr um forgangsröðina þá var hún svona. Við stóðum vörð um þá sem verst voru settir. Það er ástæðan fyrir því, hv. þm. Karl Garðarsson, að sú ríkisstjórn sem nú tók við tók við samfélagi þar sem jöfnuður var mestur á byggðu bóli, að ég held, og hann er það enn þá vegna þeirra aðgerða. Ég tel að vegna aðgerðanna sem nú eru að fara af stað (Forseti hringir.) kunni það að breytast á næstu 6–18 mánuðum.