145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og get tekið undir með honum að mestu leyti. Það er vert að halda til haga, eins og hann nefndi, gullkornunum sem fljúga hér eða öllu heldur þeim orðum sem falla sem verða væntanlega gulls ígildi og fólk ekki alveg jafn tilbúið að gleyma þegar kemur að því að velta fyrir sér hverjir eiga að sjá um stjórn landsins næst, en vonandi verða sem fyrst breytingar á því. Þingmaðurinn gerði margt að umtalsefni og ég ætla að dvelja við þá sem minna hafa og bera minnst úr býtum. Mér er svolítið hugleikið það sem kemur fram í rökstuðningi fjármálaráðuneytisins þar sem þeir segja að með því að hluta af hækkun ársins 2015 sé flýtt til 1. janúar og allri hækkun vegna ársins 2016 flýtt til 1. janúar fái lífeyrisþegar meira í sinn vasa en meðallaunþegi sem fengi borgað samkvæmt sömu launavísitölu án launaskriðs.

Þá er auðvitað 3% hækkun í byrjun þessa árs tekin með áður en samningar voru gerðir. Jafnvel þótt þeir væru teknir úr er það ósvífni að mínu mati að setja þetta fram á þennan hátt því að við vitum það öll að það er ekki þannig að fólk á hinum lægstu bótum beri meira úr býtum.

Mig langar til að benda á eitt, af því að það hefur gjarnan verið talað um alls konar lífeyri, uppbætur og guð má vita hvað. Ef til dæmis öryrki fær barnalífeyri þá skerðist lífeyrissjóðsgreiðsla hafi viðkomandi einhverja. Ég spyr: Er eðlilegt að mati þingmannsins að markmið laganna séu tekin til baka í gegnum lífeyrissjóðina? Ég spyr þingmanninn, af því að ég þekki það ekki: Heldur hann að við getum breytt þessu?