145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við þessari spurningu má vísa til áralangrar vinnu sem menn hafa unnið varðandi tryggingakerfið. Sífellt eru skipaðar nefndir og skrifaðar skýrslur en lítið verður úr framkvæmd hvað það varðar. Ef ég skildi þingmanninn rétt með barnalífeyrinn er það þannig að ef hann er greiddur út skerðast lífeyrissjóðsgreiðslur. Við þurfum ekki annað en að fara inn í reiknivél Tryggingastofnunar og leika okkur svolítið með hana. Hún er afar flott þessi greiðsluáætlun og reiknivél og það er mjög gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman. Til dæmis ef menn eru ekki með lífeyrissjóðsgreiðslur og slá inn ákveðna upphæð og sjá að upphæðin sem greidd er út er nákvæmlega sú sama en það lækkar bara það sem Tryggingastofnun greiðir út fyrir ríkið. Eins og hv. þingmaður sagði um barnalífeyrinn þá skerðast lífeyrisgreiðslur, ef þær eru þá til staðar. Við skulum hafa í huga að það eru mjög margir örorkuþegar sem hafa engar lífeyrissjóðsgreiðslur og hafa ekki úr neinu að spila þar.

Það er auðvitað það fólk sem við erum að berjast hvað mest fyrir. Ég kvíði því ekkert voðalega mikið eftir nokkur ár eða áratug hvernig lífeyrissjóðakerfið hefur þróast. Það er stórt og öflugt hjá okkur þótt maður sé ekki ánægður með allt þar inni. En það mun að sjálfsögðu spila miklu meira inn í þessar greiðslur hjá okkur sem yngri erum og erum á þeim aldri sem við erum í dag heldur en við erum að tala um.

En alltaf þurfum við samt sem áður að hugsa um þá sem eru ekki með neinar lífeyrisgreiðslur, þar sem barnalífeyririnn skerðir ekkert hjá þeim. En hefur stjórnarmeirihlutinn ekki verið að fikta eitthvað í barnalífeyrinum líka á þessu hausti?