145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hv. þingmann út í hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans misskilji eitthvað þegar þeir tala um að kjör aldraðra og öryrkja séu í góðu lagi og í samanburðinum við lægri laun verði þeir hópar komnir með það allt saman 1. janúar 2016. Hv. þm. Karl Garðarsson sagði í andsvari við hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrr í umræðunni eitthvað á þá leið að með hækkuninni upp á 9,7% væri afturvirknin komin. En heildarlaun þeirra sem fá greiddan lífeyri á árinu 2015 með 3% hækkuninni sem kom 1. janúar 2015 eru 2.700 millj. kr. Það eru 260 þús. kr. lægri árslaun en hjá þeim sem eru á lægstu laununum, þannig að það munar um 260 þús. kr. á árinu 2015. Svo kemur árið 2016 og þeir sem fá lífeyri hækka um 9,7% 1. janúar og þau kjör haldast út árið. Heildarárslaunin verða 2.964 millj. kr., en hjá þeim sem lægstu launin hafa verða árslaunin 3.180 millj. kr. með hækkuninni 1. maí 2016. Þarna munar 216 þús. kr. Samt halda stjórnarliðar því fram að afturvirknin verði komin 1. janúar og þess vegna sé í lagi að samþykkja þá áætlun (Forseti hringir.) sem upp er sett.