145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er alveg rétt, hv. þm. Oddný G Harðardóttir fór mjög vel yfir þessar tölur í morgun. Hún spyr mig hvort ég telji að stjórnarliðar misskilji annars vegar lögin og hins vegar hækkanir á hinum almenna markaði. Ég verð að segja já við því. Ég geri mér ekki grein fyrir hvernig í ósköpunum svona misskilningur getur orðið til. Ég held að þetta sé frekar þráhyggja og að þessir tveir flokkar séu bara ekkert að hugsa um aldraða og öryrkja. Mér finnst það alveg með ólíkindum að þeir skuli hanga á því umræðu eftir umræðu, mínútu eftir mínútu að 69. gr. almannatryggingalaga segi að þetta eigi bara að hækka bætur um áramót, eins og mér finnst rökstuðningurinn alltaf vera. Það er ekkert í lögunum sem segir að það eigi bara að gera það um áramót. Það er ekkert sem bannar að gera það á miðju ári.

Ég ætla ekki eitt augnablik að halda því fram að síðasta ríkisstjórn hafi brotið lög sumarið 2011 þegar við hækkuðum allar þessar bætur um 8% og 51 þús. kr. eingreiðsluna. Við vorum ekki að brjóta lög með því. Alls ekki. Við tókum bara strax á málunum. Sem rökstuðning fyrir því tek ég aftur dæmin um það hvenær kjarasamningar eru gerðir. Þá er alveg útilokað að leggja þetta fram. Ég verð bara að segja það, virðulegi forseti, sem svar við þessu. Ég skildi heldur ekki svarið áðan hjá hv. þm. Karli Garðarssyni um að þá væri afturvirknin komin, eins og hv. þingmaður sagði. Ég segi það bara enn og aftur: Það þarf ekki að bæta við það sem hv. þingmaður sagði í morgun, að munurinn á lægstu launum og greiðslum almannatrygginga verður sá munur sem hv. þingmaður er að fjalla um.