145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:09]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að benda hv. þingmanni á muninn á Samfylkingunni og Framsóknarflokknum, hann er kannski sá að Samfylkingin er sífellt að reyna að bregðast við einhverjum skoðanakönnunum, hvernig málin standa akkúrat, hvað er vinsælast í það og það skiptið, á því augnabliki. Þeir hafa verið að státa sig af því að fyrri ríkisstjórn hafi hlíft þeim verst settu og ekki ætla ég að þræta fyrir það, eflaust rétt. En hvað er þessi ríkisstjórn að gera? Er ekki verið að hlífa þeim verst settu? Núna 1. janúar verða þeir verst settu, þeir sem búa einir, einstæðingur sem býr einn, með tæplega 2 þús. kr. hærri laun eða bætur eða hvað við köllum það en sá sem er í fullri vinnu á lægstu launum. Þannig að ég er alla vega á því að bætur hjá þeim verst settu fylgi lægstu launum. Ég get tekið undir að það eru ekki háar upphæðir, ég skal taka þann slag með hv. þingmanni að hækka lægstu laun. Varðandi þróunina næstu árin er stefnt að því að lægstu laun verði komin í 300 þús. kr. árið 2018 og bætur munu fylgja þeim þannig að ég spyr hv. þingmann: Er það ekki ágætismarkmið að láta þetta fylgjast að? (Forseti hringir.) Núna er það þannig að bæturnar verða hærri fyrri part árs en lægri seinni part árs.